Innlent

Greiða atkvæði um verkföll í leik- og grunnskólum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sonja Ýr Þorbergsdóttir er formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir er formaður BSRB. vísir/arnar

Í dag hefst atkvæðagreiðsla ellefu aðildarfélaga BSRB um verkfallsaðgerðir vegna kjaradeilu þeirra við Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Atkvæðagreiðslunni lýkur á laugardag og verða niðurstöður kynntar þá eftir hádegi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá BSRB. Þar segir að deilan snúi að sameiginlegri kröfu félaganna um að starfsfólk sveitarfélaga sem vinna meðal annars á leikskólum, grunnskólum, sundlaugum, íþróttamiðstöðvum og þjónustu við fatlað fólk fái sömu laun fyrir sömu eða sambærileg störf innan sömu stofnunar eða sveitarfélags og aðrir hafa þegar fengið frá 1. janúar.

Að mati BSRB neitar SÍS að leiðrétta ójafnræðið á launum starfsfólks og segir í tilkynningunni að fundir með ríkissáttasemjara hafi engu skilað. Því sé næsta skref að félagsfólk greiði atkvæði um verkfallsaðgerðirnar. 

„Þessi staða kemur okkur mjög á óvart enda fórum við fram með mjög hófsamar kröfur til skamms tíma. Hins vegar virðist Samband íslenskra sveitarfélaga hafa skilið eftir samningsviljann heima og sýnir starfsfólki sveitarfélaga ótrúlega óbilgirni. Um er að ræða hreina mismunun þar sem fólk sem vinnur jafnvel sömu störf, á sama vinnustað, með sömu starfsheiti er boðið upp á misjöfn kjör. Auðvitað sættir sig enginn við slíkt.“ er haft eftir Sonju Ýri Þorbergsdóttur, formanni BSRB, í tilkynningunni.

Verði verkfallsboðunin samþykkt fer fyrsta lota fram í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum Kópavogs, Garðabæjar, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar þann 15. og 16. maí næstkomandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×