Innlent

Her­þyrla á leið austur reyndist vera kaf­báta­leitar­vél

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Chinook herþyrlurnar eru líklega meðal þekktustu herþyrlna í heimi. Engin slík flaug yfir Ísland um helgina.
Chinook herþyrlurnar eru líklega meðal þekktustu herþyrlna í heimi. Engin slík flaug yfir Ísland um helgina. Stuart Gleave/Getty

Bandarísk herþyrla af Chinook gerð sem virtist fljúga í austurátt yfir landið um helgina var í raun og veru bandarísk P-8 herflugvél sem notuð er í kafbátaleit. Glöggir flugáhugamenn veittu ferðum þyrlunnar athygli á vef FlightRadar.

Á vef FlightRadar mátti sjá að á ferðinni yfir landið væri Boeing CH-47F Chinook herþyrla. Voru áhugamenn um flug í Facebook hópnum „Fróðleiksmolar um flug“ fljótir að veita ferðum „þyrlunnar“ eftirtekt og hve fljótt hún flaug yfir landið og áleiðis til Noregs.

Vísir sendi utanríkisráðuneytinu fyrirspurn vegna málsins. Í svörum Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, kemur fram að um misskilning sé að ræða, nokkuð sem flugáhugamennirnir voru löngu búnir að átta sig á.

Segir í svari utanríkisráðuneytisins:

„Þetta er byggt á misskilningi. Þarna var á ferðinni bandarísk P-8 kafbátaleitarvél sem virðist hafa verið ranglega skráð á Flightradar sem Chinook-þyrla. P-8 vélarnar hafa haft tímabundna viðveru hér á landi undanfarin ár.“

Hin meinta Chinook herþyrla flaug á ógnarhraða yfir Ísland.

Í umræðum flugáhugamanna um málið kemur fram að ekki sé um fyrstu vitleysuna að ræða í boði FlightRadar. „Hraðskreiðasta þyrla í heimi,“ skrifar einn áhugamannanna á léttum nótum og vísar til þess að hraðinn var mun meiri en þekkist þegar þyrlur eru annars vegar.

Eftirlitsferðir nánast alla daga ársins

Sveinn segir í svörum til Vísis ekki hafa skýringar á því hvers vegna flugvélin skráist sem herþyrla á vef FlightRadar.

Hann segir að um sé að ræða flugvélar við kafbátaeftirlit bandalagsríkja í NATO, sem hafi farið fram við Ísland undanfarin ár vegna aukinnar umferðar kafbáta í kringum Ísland og á Atlantshafinu.

„Tímabundin viðvera þessara eftirlitsvéla ræðst af umfangi þessarar umferðar á hverjum tíma en segja má að undanfarin misseri hafi verið flogið frá Íslandi í slíkar eftirlitsferðir nánast alla daga ársins.“

Um var raunverulega að ræða P-8 herflugvél líkt og hér sést á flugi.Rob Edgcumbe/Stocktrek/Getty

Tengdar fréttir

Íslendingar auka framlög sín til öryggis- og varnarmála

Fjárhagslegur stuðningur Íslands við Úkraínu í fyrra og á þessu ári er um 4,5 milljarðar króna. Ísland er að auka framlög sín almennt til öryggis- og varnarmála eins og önnur ríki Atlantshafsbandalagsins. Bandalagið hefur áhyggjur af auknu samstarfi Rússa og Kínverja og umsvifum Kína á Kyrrahafi.

Rúss­nesk skip ógna nýjum ís­lenskum sæ­streng

Írsk stjórnvöld telja að ferðir rússneskra skipa í nágrenni við borgina Galway á vesturströndinni grunsamlegar. Bæði írski flotinn og flugherinn fylgjast með skipunum. Nýlega var opnaður fjarskiptastrengur milli Íslands og Írlands, sem liggur milli Þorlákshafnar og Galway.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×