Innlent

Munu boða til at­kvæða­greiðslu um úr­sögn úr SGS

Máni Snær Þorláksson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að um rétt skref sé að ræða.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að um rétt skref sé að ræða. Vísir/Vilhelm

Það var einróma niðurstaða á félagsfundi Eflingar að boða til allsherjar atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks um úrsögn Eflingar úr Starfsgreinasambandinu (SGS). Formaður Eflingar segir fjármunum félagsins betur varið en í greiðslur til SGS.

„Þetta er að mínu mati rétta og eðlilega skrefið til þess að taka á þessum tímapunkti,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við fréttastofu. 

Stjórn Eflingar hefur verið falið af félagsfundi að útfæra og framkvæma atkvæðagreiðslu um úrsögnina. Sólveig ímyndar sér að hægt verði að fara í atkvæðagreiðsluna í upphafi maí mánaðar og að niðurstöður ættu að liggja fyrir um miðjan maí.

Sólveig segir umræðu um úrsögn Eflingar úr SGS ekki vera nýja af nálinni, hún hafi alltaf komið upp með reglulegu millibili. Ástæðan fyrir því sé einföld:

„Staðreyndin er sú að við greiðum gríðarlega háar fjárhæðir í formi skatts til SGS, á síðasta ári ríflega 53 milljónir, en við sækjum enga þjónustu til SGS. Það er afstaða forystu félagsins að þessir fjármunir nýtist einfaldlega betur í þjónustu við félagsfólk. Jafnframt teljum við að rétt og eðlilegt að Efling sé með sjálfstæða aðild að Alþýðusambandinu en ekki með aðild í gegnum SGS eins og verið hefur.“

Sólveig segir þessa mögulegu úrsögn ekki hafa áhrif á komandi kjarasamningsviðræður um langtímasamning. „Efling hefur ekki skilað inn umboðinu til SGS, Efling hefur farið með sitt umboð í kjarasamningum og þannig verður það auðvitað áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×