Enski boltinn

Fyrsta sinn sem Man Utd fer á­fram eftir víta­spyrnu­keppni í enska bikarnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Spyrnan sem skilaði Manchester United í úrslit.
Spyrnan sem skilaði Manchester United í úrslit. Craig Mercer/Getty Images

Sagan var ekki beint með Manchester United þegar flautað var til loka framlengingar í leik liðsins gegn Brighton & Hove Albion í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á sunnudag.

Man United og Brighton mættust í frekar jöfnum leik á Wembley í Lundúnum. Undir var sæti í úrslitum FA-bikarkeppninnar, þeirrar elstu og virtustu, gegn Manchester City. Það var ljóst að mikið var í húfi og á endanum var staðan markalaus eftir venjulegan leiktíma sem og framlengingu.

Úrslit leiksins myndu því ráðast í vítaspyrnukeppni, eitthvað sem sendi kaldan svita niður bak stuðningsfólk Man United en aldrei í sögu félagsins hafði það áfram í ensku bikarkeppninni eftir vítaspyrnukeppni.

Féll Man Utd til að mynda úr leik gegn B-deildarliði Middlesbrough á síðustu leiktíð. Vorið 2009 tapaði Man Utd gegn Everton í undanúrslitum eftir vítaspyrnukeppni. Árið 2005 fór Man Utd alla leið í úrslit en beið lægri hlut gegn Arsenal eftir vítaspyrnukeppni.

Saga liðsins í FA-bikarkeppninni var því ekki með Man Utd þegar flautað var til loka framlengingar á Wembley. Ekki bætti úr skák að liðið hafði aðeins unnið eina af síðustu átta vítaspyrnukeppnum sem að hafði farið í. Það var gegn Rochdale AFC í deildarbikarnum tímabilið 2019-20. Markvörður Rochdale í þeim leik var Robert Sánchez, markvörður Brighton á sunnudag.

Fór það svo að Sánchez varði ekki eina einustu spyrnu í marki Brighton og þó David De Gea hafi heldur ekki varið eina einustu spyrnu þá hitti Solly March ekki á markið og Man United hafði betur 7-6 eftir að Victor Lindelöf þrumaði sinni spyrnu í netið.

Manchester United mætir Manchester City í úrslitum ensku bikarkeppninnar þann 3. júní næstkomandi.


Tengdar fréttir

„Vorum stað­ráðnir í að vinna þennan leik“

Erik Ten Hag og lærisveinar hans eru komnir í úrslit ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu, þeirrar elstu og virtustu. Tapið gegn Sevilla á fimmtudagskvöld sat þó enn í Ten Hag er hann ræddi við blaðamenn eftir sigur Manchester United á Brighton & Hove Albion eftir vítaspyrnukeppni á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×