Fótbolti

Víkingsbanarnir úr leik og West Ham örugglega í undanúrslitin

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Endar Moyes uppi með titilinn?
Endar Moyes uppi með titilinn? EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Lech Poznan er úr leik í Sambandsdeild Evrópu þrátt fyrir frækinn útisigur á Fiorentina í 8-liða úrslitum keppninnar í kvöld.

Lech tapaði heimaleiknum í Póllandi 1-4 og því ljóst að liðið ætti erfitt verkefni fyrir höndum í Flórens í kvöld. Lengi vel leit þó út fyrir að pólska liðinu myndi takast ætlunarverk sitt því Lech Poznan leiddi leikinn með þremur mörkum gegn engu eftir 70 mínútna leik og stefndi í framlengingu.

Fiorentina tók sig hins vegar taki á lokakafla leiksins; skoruðu tvö mörk og tryggðu sig þar með áfram í undanúrslit keppninnar. Þar með er þátttöku Lech Poznan í Sambandsdeildinni lokið en liðið tapaði aðeins þremur leikjum; gegn Fiorentina, Villarreal og Víkingi Reykjavík í forkeppni keppninnar síðasta sumar þar sem Víkingar unnu 1-0 sigur í Víkinni en töpuðu svo einvíginu í Póllandi.

Lærisveinar David Moyes í West Ham komust örugglega áfram úr einvígi sínu gegn Gent þar sem Michail Antonio gerði tvö mörk og þeir Lucas Paqueta og Declan Rice sitt markið hvor í 4-1 sigri í kvöld og vinna því einvígið samanlagt 5-2.

Vítaspyrnukeppni þurfti til að skera úr um einvígi AZ Alkmaar og Anderlecht þar sem Hollendingarnir höfðu að lokum betur.

Framlenging stendur yfir í leik Nice og Basel og verður fréttin uppfærð þegar leiknum lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×