Erlent

21 ár í fangelsi fyrir að gefa tví­fara sínum eitraða osta­köku

Bjarki Sigurðsson skrifar
Viktoria Nasyrova eitraði fyrir tvífara sínum og reyndi að stela auðkenni hennar.
Viktoria Nasyrova eitraði fyrir tvífara sínum og reyndi að stela auðkenni hennar.

Viktoria Nasyrova, 47 ára gömul rússnesk kona, hefur verið dæmd í 21 árs fangelsi fyrir að eitra fyrir tvífara sínum í ágúst árið 2016. Gaf hún henni eitraða ostaköku en tvífarinn, sem einnig er rússnesk kona, lifði atvikið af.

Það var árið 2016 þegar Nasyrova vingaðist við aðra rússneska konu í New York í Bandaríkjunum. Urðu þær góðar vinkonur og þóttu þær afar líkar. Þær töluðu báðar rússnesku, voru með mjög dökkt hár, svipaðan húðlit og svipaðar að stærð.

Nasyrova fór heim til hennar í ágúst það ár og gaf henni ostaköku. Konan át ostakökuna en varð afar veik eftir átið. Daginn eftir kom önnur vinkona hennar í heimsókn og fann hana meðvitundarlausa á gólfinu. Pillum hafði verið dreift í kringum hana til þess að reyna að láta líta út fyrir að hún hafi svipt sig lífi. 

Þegar hún kom aftur heim af spítalanum kom í ljós að búið var að stela vegabréfi hennar og fleiri skilríkjum. Þá hafði öllum verðmætum verið stolið .

Lögreglan skoðaði kökuna og fundu phenazepam í henni. Nasyrova var dæmd fyrir líkamsárás, ólögmæta frelsissviptingu og þjófnað. Þarf hún að dúsa í fangelsi þar til hún verður 68 ára gömul, í 21 ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×