Enski boltinn

Ras­h­ford fór með til Anda­lúsíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcus Rashford hefur verið hættulegasti leikmaður Manchester United á leiktíðinni.
Marcus Rashford hefur verið hættulegasti leikmaður Manchester United á leiktíðinni. EPA-EFE/Adam Vaughan

Marcus Rashford ferðaðist með Manchester United til Andalúsíu þar sem liðið mætir Sevilla í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Einvígið er í járnum eftir 2-2 jafntefli á Old Trafford.

Man United henti frá sér 2-0 forystu í fyrri leiknum en þar var Marcus Rashford hvergi sjáanlegur. Hann hafði nefnilega meiðst á nára í 2-0 sigrinum á Everton nokkrum dögum áður. Lagði Rashford þar upp annað mark liðsins sem Anthony Martial skoraði á 71. mínútu en tíu mínútum síðar var Rashford tekinn af velli.

Í fyrri leiknum gegn Sevilla undu ósköpin yfir þar sem miðvörðurinn Lisandro Martínez braut bein í rist og verður frá keppni út tímabilið. Þá meiddist hinn miðvörður liðsins, Raphaël Varane, einnig í leiknum og gæti farið svo að hann sé einnig frá keppni.

Í 2-0 sigrinum gegn Nottingham Forest um liðna helgi vantaði miðverðina tvo, Rashford, Luke Shaw, Tyrell Malacia, Marcel Sabitzer – sem skoraði bæði mörkin í fyrri leiknum gegn Sevilla – og Alejandro Garnacho.

Erik Ten Hag hefur því verið ánægður með að Shaw, Malacia, Sabitzer og Rashford æfðu allir með Man United í gær, miðvikudag. Hvort Ten Hag taki sénsinn á að spila Rashford annað kvöld á eftir að koma í ljós en liðið mætir Brighton & Hove Albion í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar strax á sunnudag.

Eitt er þó víst, Bruno Fernandes verður ekki með Man United í kvöld þar sem hann er í leikbanni. Hann ætti því að vera ferskur þegar Man United mætir Brighton á Wembley á sunnudag.

Leikur Sevilla og Man United hefst klukkan 19.00 í kvöld og er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Sömu sögu er svo að segja af leiknum gegn Brighton á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×