Innlent

Daníel færist á milli skrif­stofu­stjóra­em­bætta

Máni Snær Þorláksson skrifar
Daníel Svavarsson hefur verið skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu samhæfingar og stefnumála
Daníel Svavarsson hefur verið skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu samhæfingar og stefnumála Aðsend

Daníel Svavarsson hefur verið skipaður skrifstofustjóri á skrifstofu samhæfingar og stefnumála í forsætisráðuneytinu. Daníel mun flytjast úr embætti skrifstofustjóra í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

Í tilkynningu um skipunina sem birt er á vef Stjórnarráðsins kemur fram að Daníel muni hefja störf í forsætisráðuneytinu þann 15. maí næstkomandi. Hann tekur við embættinu af Hermanni Sæmundssyni sem var nýverið skipaður ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins.

Daníel er með meistaragráðu í hagfræði og doktorsgráðu í viðskiptafræði frá Gautaborgarháskóla. Hann hefur gegnt embætti skrifstofustjóra í menningar- og viðskiptaráðuneytinu síðan í maí í fyrra. Áður starfaði hann meðal annars hjá Seðlabanka Íslands um fimm ára skeið og var aðalhagfræðingur Landsbankans í tólf ár.

Fram kemur í tilkynningunni að skrifstofa samhæfingar og stefnumála í ráðuneytinu gegnir samhæfingarhlutverki í lykilverkefnum ganga þvert á ráðuneyti. Skrifstofan styðji einnig við stefnumótun ríkisstjórnarinnar, ráðuneyta og stofnana, fylgir eftir stefnu ríkisstjórnarinnar, hefur yfirumsjón með sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, velsældaráherslum og þjónustar ráðherranefndir. 

Auk þess eigi skrifstofan í virkum samskiptum við aðila vinnumarkaðarins, Þjóðhagsráð, Seðlabankann og Hagstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×