Erlent

Tíu í fangelsi vegna far­þega­þotunnar sem var skotin niður

Kjartan Kjartansson skrifar
Farþegaþotan sem var skotin niður nærri Teheran árið 2020 var á vegum Ukraine International Airlines. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Farþegaþotan sem var skotin niður nærri Teheran árið 2020 var á vegum Ukraine International Airlines. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/EPA

Dómstóll í Íran dæmdi tíu lágt setta liðsmenn byltingarvarðarins í fangelsi vegna úkraínskrar farþegaþotu sem var skotin niður í janúar árið 2020. Aðstandendur fórnarlambanna segja málalyktirnar óviðunandi.

Loftvarnasveit íranska byltingarvarðarins skaut tveimur flugskeytum á farþegaþotu Ukraine International Airlines skömmu eftir að hún tók á loft frá Teheran fyrir rúmum þremur árum. Hundrað sjötíu og sex manns sem voru um borð í vélinni fórust.

Yfirmaður loftvarnasveitarinnar var dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir aðild að manndrápum og fyrir að óhlýðnast skipunum. Níu aðrir hlutu eins til þriggja ára fangelsisdóma, þar á meðal tveir liðsmenn sveitarinnar sem stýrði flugskeytakerfinu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Fjölskyldur fórnarlambanna sögðu dómana yfir mönnunum þýðingarlausa og óásættanlega. Írönsk yfirvöld hefðu ekki sótt þá sem bæru aðalábyrgðina til saka.

Írönsk stjórnvöld neituðu því í þrjá daga eftir að flugvélin fórst að þau hefðu haft nokkuð með það að gera. Þess í stað sögðu þau að tæknileg bilun hlyti að hafa orðið í vélinni. Á endanum viðurkenndi byltingarvörðurinn þó að loftvarnasveitin hefði talið að flugvélin væri bandarískt flugskeyti. 

Íranir höfðu mikinn viðbúnað á þessum tíma þar sem þeir höfðu skotið flugskeytum á tvær herstöðvar í Írak þar sem bandarískir hermenn voru til þess að hefna fyrir dráp Bandaríkjamanna á Qasem Soleimani, hershöfðingja byltingarvarðarins, nokkrum dögum áður en þotan var skotin niður.

Flestir farþegarnir voru frá Úkraínu, Kanada, Bretlandi og Svíþjóð. Stjórnvöld þar saka Írani um að hafa skotið þotuna vísvitandi niður. Írönsk flugmálayfirvöld kenndu mannlegum mistökum um að þotan var skotin niður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×