Neytendur

Þrautin þyngri að verða sér úti um grautinn

Máni Snær Þorláksson skrifar
Grjónagrauturinn frá MS er illfáanlegur þessa dagana sökum rangra grjóna.
Grjónagrauturinn frá MS er illfáanlegur þessa dagana sökum rangra grjóna. Vísir/Egill/Sara

Grjónagrautur frá Mjólkursamsölunni (MS) hefur verið illfáanlegur á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga. Rekja má þetta til þess að MS fékk ranga tegund af grjónum í síðustu sendingu frá birgjanum. Verið er að vinna í að fá réttu grjónin aftur.

Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri hjá MS, staðfestir í samtali við fréttastofu að ákveðinn skortur hefur verið á grjónagrautnum frá fyrirtækinu. Björn útskýrir að grjónin sem notuð voru í síðustu lotu hafi ekki verið af réttri tegund. 

Þessi umrædda tegund af grjónum hleypir meiri sterkju út í grautinn sem gerir það að verkum að hann verður kekkjóttari. Að hans sögn var grauturinn sem framleiddur var með þessum grjónum jafn bragðgóður og venjulega en að áferðin hafi hins vegar ekki verið á pari.

„Það er í rauninni ekkert að þessari vöru. Hún bragðast vel, þetta er aðallega útlitslegur galli.“

Nú er beðið eftir að réttu grjónin komi aftur og gæti það tekið smá tíma. Björn segir að vonast sé til þess að þau komi á næstu tveimur vikum. En þangað til getur verið hægara sagt en gert að nálgast grautinn í hillum matvöruverslana.

Gífurlega vinsæll grautur

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir í samtali við fréttastofu að nú þegar sé lítið til af grjónagrautnum í verslunum Krónunnar á höfuðborgarsvæðinu. Enn séu grauturinn til staðar í sumum verslunum en þó ekki í miklu magni.

Ljóst er að þessi skortur gæti ollið fjölda fólks ama þar sem grjónagrauturinn frá MS er gífurlega vinsæll. Fjallað var um vinsældir grautsins í kvöldfréttum Stöðvar 2 í fyrra en þar kom fram að framleiddar eru allt að tuttugu og fimm þúsund dósir af grautnum í hverri viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×