Handbolti

„Þetta verður frábært einvígi út af sögunni“

Jón Már Ferro skrifar
Afturelding vann á dögunum Powerade bikarinn í handbolta.
Afturelding vann á dögunum Powerade bikarinn í handbolta. Vísir/Hulda Margrét

Fram hefur unnið báða leikina við Aftureldingu á nýliðnu tímabili Olís deildarinnar. Afturelding fær tækifæri til að svara fyrir það þegar liðin mætast í 8-liða úrslitum deildarinnar. Fyrsti leikur einvígisins er á sunnudaginn klukkan 16:00 á Framvellinum í Úlfarsárdal. 

„Það er alltaf umræðan fyrir þessa leiki að Framarar hafi tak á Aftureldingu,“ sagði sérfræðingur Seinni bylgjunnar, Arnar Daði Arnarsson.

„Ef ég á að segja alveg eins og er finnst mér rosalega gott jafnvægi í herbúðum Aftureldingar. Það er allt annað að sjá liðið núna frá því í fyrra. Þetta verður frábært einvígi út af sögunni,“ sagði Arnar.

Klippa: Umræða um einvígi Aftureldingar og Fram

Þrátt fyrir að Afturelding sé í 5. sæti og Fram í því fjórða þá er Stefán Árni Pálsson, stjórnandi Seinni bylgjunnar, á því að Afturelding sé sigurstranglegra liðið fyrir einvígið. Undir það tekur Theodór Ingi Pálmason, sérfræðingur þáttarins en á dögunum varð Afturelding bikarmeistari.

„Það er eiginlega skrítið að segja það sérstaklega í ljósi þess sem þið voruð að tala um. Fram er búið að vera með tak á Aftureldingu síðustu ár. Þrátt fyrir að Afturelding hafi verið með sterkara lið heldur en Fram. Nú erum við að horfa á þessi lið sem svipað jöfn ef við lítum á tímabilið í heild sinni. Fram vinnur báða innbyrðis leikina en ég er algjörlega sammála ykkur. Það er þannig taktur og stemning í Mosfellsbænum núna að mér finnst þeir mjög líklegir í þessari úrslitakeppni. Eru með virkilega öflugt byrjunarlið. Þessi bikartitill held ég að hafi gefið þeim rosalega mikið,“ sagði Theodór. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×