Neytendur

Fær endur­­­­­greitt fyrir elli­­nöðru sem hann var ófær um að nota

Bjarki Sigurðsson skrifar
Rafskútur fyrir eldri borgara eru stundum kallaðar ellinöðrur. Þessi ellinaðra er svipuð þeirri sem maðurinn keypti.
Rafskútur fyrir eldri borgara eru stundum kallaðar ellinöðrur. Þessi ellinaðra er svipuð þeirri sem maðurinn keypti. Getty

Níræður karlmaður fær endurgreitt fyrir ellinöðru sem hann keypti frá fyrirtæki sem selur rafdrifin fjörhjól til eldri borgara. Daginn eftir kaupin mundi hann ekki eftir þeim en hann er með öllu ófær um að stjórna því. Að mati kærunefndar krafðist maðurinn endurgreiðslu innan þess ramma sem leyfilegt er. 

Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Umrædd kaup áttu sér stað í júní árið 2022. Þá kom starfsmaður ónefnds fyrirtækis sem selur hjól ætluð eldri borgurum á heimili mannsins en hann býr í öryggisíbúð á hjúkrunarheimili. Keypti hann af honum rafmagnshjól á rétt rúmlega 600 þúsund krónur. Stjórnendur og starfsfólk hjúkrunarheimilisins höfðu enga vitneskju um heimsókn sölumannsins. 

Daginn eftir hafði dóttir mannsins samband við söluaðilann og óskaði eftir því að fá endurgreitt og að hjólinu yrði skilað. Var því hafnað af söluaðila, sem og tveimur ítrekunum. 

Maðurinn gat með engu móti nýtt sér hjólið þar sem hann er með skerta líkamlega og vitsmunalega getu. Þar af leiðandi var hann hættulegur sjálfum sér og öðrum myndi hann nota það. Lyklarnir af hjólinu voru teknir af manninum tveimur dögum eftir kaupin og því komið fyrir í geymslu á hjúkrunarheimilinu. Þann dag mundi maðurinn ekki eftir því að hafa keypt hjólið og kvaðst vera með það í láni frá sölumanninum. 

Fyrirtækið sagði manninn hafa prófað hjólið sama dag og hann keypti það á bílastæði fyrir utan heimilið. Leist honum vel á það og staðgreiddi með greiðslukorti. 

Voru forsvarsmenn fyrirtækisins undrandi á viðbrögðum aðstandenda mannsins um að hann þyrfti að fá endurgreitt. Maðurinn hafi virst áttaður og skýr og sé fjárráða. Ekkert hafi bent til þess að hann hafi verið ófær um að aka hjólinu eða taka eigin ákvarðanir. Því var kröfunni hafnað. 

Vísaði fjölskylda mannsins til þess að samkvæmt lögum um samninga sem gerðir eru utan fastra starfsstöðvar hafi neytandi fjórtán daga frest til að falla frá samningi. Neytandi þurfi ekki að tilgreina ástæðu.

Kærunefndin tók undir þetta og var því fyrirtækinu gert að endurgreiða manninum hjólið að fullu. Þó var dregin frá upphæð sem samsvaraði kostnaði við lagfæringu á lakkskemmd sem varð á hjólinu þann stutta tíma sem það var í eigu mannsins. 

Tengd skjöl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×