Innlent

„Þetta verður stríð“

Snorri Másson skrifar

Breytingar tóku gildi í byrjun mánaðar á lögum um leigubíla á Íslandi, sem gera fleiri fyrirtækjum kleift að hefja starfsemi á markaðnum og afnema um leið hámarksfjölda leyfa fyrir bílstjóra. Leigubílstjórar eru mótfallnir breytingunum en í Íslandi í dag var leitað eftir áliti almennings.

Viðhorfin eru ólík eftir því hver er spurður, líkt og sjá má í innslaginu hér að ofan. Þar er yfirskriftin: „Þetta verður stríð,“ sem er tilvitnun í einn viðmælandann, Gunnar Einarsson, sem segir af og frá að leyfa svo mikla samkeppni á markaðnum.

Magný Jóhannsdóttir er ekki fylgjandi breytingunum. „Það á bara að virða það sem var; þetta var ákveðin próf og réttindi sem þeir fengu. En svo gæti ég bara farið inn í þetta starf,“ segir Magný, en faðir hennar var leigubílstjóri. Því þykir henni vænt um stéttina og vill hafa þetta óbreytt.

Valdimar Tómasson, Magný Jóhannsdóttir og Sverrir Kaaber lögðu mat á lagabreytingar um umhverfi leigubíla í Íslandi í dag.Vísir

Sverrir Kaaber segir að þetta sé bara framtíðarþróun. „Fólk er að gera allt öðruvísi hluti núna en fyrir þrjátíu eða fjörutíu árum síðan. Í gamla daga þurfti maður að bíða á nóttinni lengi lengi eftir leigubíl. Það er liðin tíð,“ segir Sverrir en honum er vinsamlega bent á það á móti, að það er ekki liðin tíð.

Valdimar Tómasson ljóðskáld leggur þá orð í belg og kveðst hafa áhyggjur af stéttinni. „Það stækkar ekkert markaðurinn þótt það komi fleiri gammar inn á svæðið,“ segir Valdimar.


Tengdar fréttir

Hopp óttast ekki sam­keppni við Uber

Það kann að hljóma eins og aprílgabb, en Hopp, sem flestir tengja við rafhlaupahjól, hefur hafið innreið sína á leigubílamarkað í krafti nýrrar löggjafar sem tók gildi í dag. Framkvæmdastjórinn er spenntur fyrir komandi tímum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×