Innlent

Inn­heimtu­stofnun sveitar­fé­laga er stofnunin sem braut jafn­réttis­lög

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Dómurinn bætist á langa hneykslissögu stofnunarinnar.
Dómurinn bætist á langa hneykslissögu stofnunarinnar.

Innheimtustofnun sveitarfélaga er sú ríkisstofnun sem fundin var brotleg af héraðsdómi Reykjavíkur fyrir páska. Stofnunin braut jafnréttislög með stórfelldum kynbundnum launamun sem nam hálfri milljón króna á mánuði hjá fólki í sambærilegri stöðu.

Hefur stofnuninni verið gert að greiða starfsmanni, kvenkyns lögfræðingi, rúmar 19 milljónir króna vegna 40 mánaða kynbundins launamunar. Einnig 1 milljón króna í miskabætur en konan sagði launamuninn hafa verið verulega niðurlægjandi. Gerðir voru svokallaðir „skúffusamningar,“ við karlkyns lögfræðinga stofnunarinnar.

Í dómi héraðsdóms var haldið nafnleynd, bæði yfir aðilum máls og stofnuninni sjálfri, sem hefur verið gagnrýnt á samfélagsmiðlum.

Aldís Hilmarsdóttir, formaður stjórnar Innheimtustofnun sveitarfélaga, staðfestir að þau séu stofnunin sem um ræðir en málið hafi komið upp í tíð fyrri stjórnenda. Hún segir að um leið og ný stjórn tók við hafi málið verið tekið fyrir og þau viðurkennt kröfu konunnar eftir skoðun með lögfræðingi. Þannig hafi þau greitt konunni rúmlega sextán og hálfa milljón króna í október 2022.

Mörg hneykslismál

Hneykslismál hafa plagað Innheimtustofnunina undanfarin ár. En í apríl 2022 voru Jón Ingvar Pálsson forstjóri og Bragi Axel Rúnarsson forstöðumaður reknir úr starfi. Ástæðan sem gefin var upp voru alvarleg broti í starfi og vanefndir á samningi vegna trúnaðarbrots. Þeir höfðu verið sendir í leyfi í desember árið 2021 í kjölfar úttektar Ríkisendurskoðunar á verkefnum stofnunarinnar.

Í umfjöllun DV um stofnunina árið 2019 kom fram að fyrrverandi starfsmenn Innheimtustofnunar hefðu vitnað til um andlegt ofbeldi, einelti, ógnarstjórnun, yfirgang gegn konum, margföld trúnaðarbrot og furðuleg afskipti af einkalífi starfsfólks.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×