Erlent

Kín­verjar æfa hvernig þeir myndu um­kringja Taí­van

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Taívanir sögðust myndu bregðast við af yfirvegun en sendu herþotur á loft til að fylgjast með.
Taívanir sögðust myndu bregðast við af yfirvegun en sendu herþotur á loft til að fylgjast með. epa/Ritchie B. Tongo

Þriggja daga heræfingar Kínahers, sem miða að því að æfa það hvernig herinn myndi umkringja Taívan ef til átaka kæmi, standa nú yfir. Stjórnvöld í Pekíng segja æfingarnar viðvörun til yfirvalda á eyjunni.

Æfingarnar hófust nokkrum klukkustundum eftir að Tsai Ing-wen, forseti Taívan, snéri aftur eftir opinbera heimsókn til Bandaríkjanna.

Varnarmálaráðuneyti Taívan sagði að 71 herflugvél Kínverja og níu skip hefðu farið yfir miðlínuna á Taívan-sundi. Línan markar óviðurkennd skil yfirráðasvæðis Kína og Taívan.

Samkvæmt Reuters var skotum hleypt af á einu skipanna þegar það fór framhjá Pingtan-eyju, sem er sú eyja sem liggur næst Kína.

Kínverjar halda reglulega heræfingar umhverfis Taívan en talið er að um sé að ræða viðbrögð við heimsókn Tsai Ing-wen til Bandaríkjanna, þar sem hún átti meðal annars fund með Kevin McCarthy, forseta neðri deildar Bandaríkjaþings.

Tsai sagði á laugardaginn að ríkisstjórn hennar myndi vinna áfram að því með Bandaríkjunum og öðrum lýðræðisríkjum, gegn útþenslustefnu Kína.

Michael McCaul, formaður utanríkismálanefndar fulltrúadeildarinnar, sagði að Bandaríkjamenn myndu sjá Taívönum fyrir vopnum, „ekki fyrir stríð, heldur til að halda frið“.

Varnarmálaráðuneyti Taívan segir að Taívanir muni bregðast við heræfingum Kínverja af yfirvegun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×