Erlent

Milljarða­mæringur stunginn til bana í San Francisco

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bob Lee var 43 ára gamall þegar hann lést.
Bob Lee var 43 ára gamall þegar hann lést. Twitter

Bob Lee, stofnandi tækniforritsins Cash App, fannst stunginn til bana í Rincon Hill-hverfinu í San Francisco í Bandaríkjunum á þriðjudaginn. Á öryggismyndavélum má sjá hvernig ökumenn hunsuðu særðan Lee er hann óskaði eftir hjálp.

Lögreglunni barst fyrst tilkynning um málið klukkan hálf þrjú, aðfaranótt þriðjudags. Fór lögreglan á staðinn og fannst Lee þá meðvitundarlaus með tvö stungusár á bringu. Hann var fluttur með hraði á sjúkrahús en var þar úrskurðaður látinn.

Lee var stofnandi smáforritsins Cash App þar sem notendur geta sent pening sín á milli með auðveldari hætti en áður, svipað forrit og Aur og Kass eru fyrir okkur Íslendinga. 44 milljónir manna nota forritið og var árið 2020 verðmetið á 40 milljarða bandaríkjadala, 5 þúsund milljarða íslenskra króna. 

BBC greinir frá því að á öryggismyndavélum megi sjá Lee ganga á milli bíla að reyna að fá aðstoð. Við einn bílinn lyfti hann bol sínum til að sýna stungusár en ökumaðurinn keyrði í burtu. 

Lee var búsettur í Miami en staddur í San Francisco til að taka þátt í ráðstefnu. Þá ákvað hann að vera í borginni lengur til þess að hitta vini sína sem búa þar.

„Ég var að missa besta vin minn, son minn Bob Lee þegar hann lést á götum San Francisco snemma á þriðjudagsmorgun,“ skrifaði faðir Lee, Rick Lee, á Facebook í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×