Handbolti

„Nú er bara að byggja á þessu upp á framhaldið“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar. vísir/Diego

Stjarnan fékk skell í síðustu umferð Olís-deildar karla í handbolta þegar laut í parket fyrir ÍR. Það er morgunljóst að Patrekur Jóhannesson og leikmenn Stjörnuliðsins hafi farið vel yfir það tap í vikunni sem leið frá þeim leik þar til liðið fékk Selfoss í heimsókn í kvöld.

Meiðsladraugurinn sem gert hefur sér setu í Mýrinni kom ekki í veg fyrir að Stjarnan vann sannfærandi sigur og liðið blandar sér af fullum krafti í baráttunni um heimavallarétta í úrslitakeppni deildarinnar.

„Mér fannst varnarleikurinn flottur, 5-1 vörnin gekk vel og við náðum að beina Selfyssingum inn á miðju, nákvæmlega eins og við vildum. Það var allt annað sjá liðið í þessum leik en á móti ÍR í síðustu viku og ég var ánægður með að sjá svarið eftir lélega frammistöðu í Breiðholtinu,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar að leik loknum.

„Sóknarleikurinn gekk svo bara nokkuð smurt og þeir leikmenn sem komu inn vegna meiðsla stóðu sig vel. Auðvitað er eitthvað sem við getum bætt en þetta var mjög jákvætt. Nú er bara að byggja á þessu upp á framhaldið. Við megum ekki hafa jafn miklar sveiflur og voru á milli síðustu tveggja leikja í næstu leikjum okkar,“ sagði hann enn fremur.

„Við erum að glíma við meiðsli þessa stundina en við getum ekkert skýlt okkur bakvið það. Við erum enn með öfluga og reynslumikla leikmenn inni á vellinum og leikmenn sem geta vel tekið við keflinu. Við fórum vel yfir hvað aflaga fór á móti ÍR og náðum að laga það flest í þessum leik,“ sagði þjálfarinn um stöðu mála hjá Stjörnuliðinu.

„Sú staðreynd að við erum án lykilleikmanna þýðir að það eru leikmenn sem fá tækifæri og aukna ábyrgð. Það eykur breiddina þegar við fáum leikmennina til baka. Í kvöld gladdi það mig mikið að sjá Dag Loga og Rytis sýna sig á stóra sviðinu og Ari Sverrir er að bæta sig mikið með hverjum leiknum sem hann spilar,“ sagði hann einnig um hóp sinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×