Innlent

Skólp flæddi inn á heimili fjöl­skyldu í Kópa­vogi: „Hér er allt fullt af skít“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Fjölskyldan þarf að búa á hóteli á meðan verið er að sótthreinsa íbúðina.
Fjölskyldan þarf að búa á hóteli á meðan verið er að sótthreinsa íbúðina. Aðsendar

Fjögurra manna fjölskylda í Kópavogi sér fram á milljóna tjón eftir að stífla í skólpröri olli því að skólp flæddi inn í íbúð þeirra og olli gífurlegum skemmdum. Eigandi segir Kópavogsbæ hafa viðurkennt ábyrgð á stíflunni. Svör frá tryggingafélaginu séu á þá leið að ekkert sé hægt að aðhafast fyrr en beiðni berist frá Kópavogsbæ. Íbúðin sé byrjuð að mygla og tíminn á þrotum. Kópavogsbær hafnar að hafa viðurkennt ábyrgð á stíflunni.

Heiðrún Finnsdóttir býr ásamt eiginmanni sínum, tveimur börnum, ketti og hundi í sex íbúða fjölbýlishúsi sem byggt var í kringum aldamótin.

„Okkar íbúð er semsagt á fyrstu hæð og í kjallaranum, þar sem bílakjallarinn var innréttaður sem íbúðarhúsnæði og samþykktur af bænum. Íbúðin var nýuppgerð þegar við fluttum inn á seinasta ári, nýlagt parket og allt nýtt. Klósettið er í kjallaranum, þrjú svefnherbergi, þvottahúsið, stofan, skrifstofa og baðherbergi.“

Saur, rusl og óþrifnaður út um allt

Síðastliðið þriðjudagskvöld fór sonur Heiðrúnar niður í kjallarann og tók þá eftir að neðri hæðin var að fyllast af vatni. 

„Hann sér vatn út um allt og gargar á systur sína, pabba sinn og afa sinn, sem hringir á 112 og í kjölfarið kemur slökkviliðið,“ segir Heiðrún en sjálf var hún í vinnu á meðan þetta gerðist.

Hún lýsir því hvernig skólpið flæddi inn í íbúðina, með tilheyrandi óþef og óþrifnaði. 

„Maðurinn minn lýsir því þannig að það hafi verið saur, tægjur af rusli og klósettpappír og allskyns viðbjóður.“

Þegar Heiðrún kom heim mætti henni hópur af slökkviliðsmönnum sem voru í óða önn að moka skólpinu út og „röflandi yfir dömubindum og túrtöppum í niðurföllum“ eins og hún orðar það. Síðan hafi dælubíll mætt á svæðið og hafist handa við að reyna að losa stífluna. Heiðrún segir að í ljós hafi komið að stíflan átti rætur sínar að rekja í enn stærri stíflu í skólpkerfum Kópavogsbæjar.

„Fulltrúi Kópavogsbæjar kom á meðan þetta var allt saman að gerast og hann játaði þarna hreint út að þeir hafi vitað af stíflunni í einhvern tíma. Þannig að trassaskapurinn er augljóslega hjá bænum.“

Enginn axlar ábyrgð

Heiðrún segist hafa hafst samband við VÍS í kjölfarið, sem er með húseigendatrygginguna.

„Þeir sögðu að stíflan væri þeim utanaðkomandi og bentu okkur á að tala við Kópavogsbæ. Kópavogsbær er hins vegar tryggður hjá VÍS. Þannig að þessir tveir aðilar benda bara á hvorn annan og ekkert gerist. VÍS segist ekkert geta gert fyrr en Kópavogsbær lætur heyra í sér. Af því að stíflan er í skólplögnum Kópavogsbæjar segir VÍS að þeir geti ekkert gert fyrr en það sé ljóst hver ber ábyrgð á bótaskyldunni og benda á Kópavogsbæ, sem bendir á Vís. Og enginn ætlar að axla ábyrgð. Við höfum líka reynt að hafa samband við umsjónarmann hjá bænum, sem sér um skólplagnirnar,en hann annaðhvort lætur ekki ná í sig eða segist ekki geta gert neitt.“

Heiðrún segist hafa mætt á skrifstofur bæjarins í dag, eftir að hafa eytt öllum gærdeginum í að leita svara hjá bænum og tryggingafélaginu. Hún hafi loks náð tali af afleysingastarfsmanni sem hafi ekkert getað gert en hann hafi síðan komið henni í samband við fulltrúa hjá umhverfissviði bæjarins.

„Þá segir hann mér að pappírarnir hafi verið sendir á VÍS í hádeginu, og að þetta sé „í ferli.“ Fulltrúi sem ég talaði við hjá VÍS segist hins vegar ekkert hafa heyrt frá þeim.“

Fjölskyldan hefur fengið þau tilmæli frá tryggingafélaginu að ekki megi hrófla við neinu í íbúðinni fyrr en matsmenn séu búnir að koma og mæla íbúðina út.

„En nú er íbúðin byrjuð að mygla og við getum ekki beðið lengur. Við erum eiginlega búin að gefast upp á biðinni og erum byrjuð að moka út. Við fengum sjálf matsmann til okkar í gær. Mér skilst að það þurfi að saga að lágmarki 35 til 40 cm af öllum gipsplötum á gifsveggjum. Það eru ennþá pollar hér og þar. Allt innbúið er ónýtt, allir sófar, heimabíóið, allt sem var inni á baði. Sem betur fer skemmdist lítið hjá börnunum.“

Algjörlega ráðþrota

Fjölskyldan hefur þurft að dvelja á hóteli síðustu nætur, þar sem að það þarf að þrífa og sótthreinsa alla íbúðina. „Eftir situr heil fjölskylda í skítnum,“ eins og Heiðrún orðar það sjálf.

„Það er komið á þriðja sólarhring síðan þetta gerðist og það gengur ekkert að tjónka við bæinn, við fáum engin svör og vitum ekkert,“ segir Heiðrún. Hún segir fjölskylduna sitja eftir í „saurbæli“, sem enginn vilji taka ábyrgð á, þar sem allt strandi það á pappírsvinnu. Hún segist algjörlega ráðþrota. Biðin sé óþolandi.

„Við höfum ekkert komist í vinnu vegna þess að við þurfum að vesenast í þessu. Það getur ekki verið að einstaklingur þurfi að þrífa upp skítinn eftir heilt bæjarfélag, í orðsins fyllstu merkingu. Við getum ekki beðið lengur.“

Uppfært 31. mars klukkan 12:22 með tilkynningu frá Kópavogsbæ

Ekki er rétt sem fram kemur í fréttinni að Kópavogsbær hafi viðurkennt ábyrgð á stíflunni og þá er ekki rétt að Kópavogsbær hafi vitað af stíflunni. Kópavogsbær lét hreinsa lögnina í gær, og voru lagnir myndaðar til að athuga með frekari skemmdir.

Húsnæðiseigendum hefur verið bent á að tilkynna tjónið til VÍS, sem er tryggingarfélag Kópavogsbæjar. Vís tekur við tilkynningunni og leitar í framhaldi eftir upplýsingum um atvikið og metur bótaskyldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×