Erlent

Rússar hand­taka blaða­mann Wall Street Journal fyrir njósnir

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríski blaðamaðurinn var handtekinn í Katrínarborg.
Bandaríski blaðamaðurinn var handtekinn í Katrínarborg. Vísir/Getty

Rússneska leyniþjónustan FSB segist hafa handtekið blaðamann bandaríska blaðsins Wall Street Journal fyrir meintar njósnir. Blaðamaðurinn gæti átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi verði hann fundinn sekur um njósnir.

Evan Gershkovich, sem er bandarískur ríkisborgari, er sakaður um að hafa reynt að komast yfir leynilegar upplýsingar um rússneskt hergagnafyrirtæki að fyrirmælum bandarískra stjórnvalda, að sögn FSB sem er arftaki alræmdu leyniþjónustu Sovétríkjanna KGB.

Blaðamaðurinn er sagður hafa verið handtekinn í Katrínarborg í Úralfjöllum en FSB greinir ekki frá hvenær.

Wall Street Journal segist í yfirlýsingu hafna alfarið ásökunum Rússa og krefst þess að hann verði látinn laus tafarlaust.

AP-fréttastofan segir að Gershkovich sé fyrsti blaðamaður bandarískrar fréttastofu sem sé handtekinn fyrir njósnir í Rússlandi frá tíma kalda stríðsins. Mikil spenna hefur einkennt samskipti Rússlands og Bandaríkjanna eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í fyrra.

Rússneski fjölmiðillinn Moscow Times segir að frést hafi af Gershkovich í Katrínarborg við að fjalla um innrás Rússa í Úkraínu og málaliðaherinn Wagner group. Dmitrí Kolezev, blaðamaður frá Katrínarborg sem býr utan Rússlands, segir miðlinum að líklegast sé að blaðamannastörf Gershkovichs hafi verið ástæða þess að hann var handtekinn.

Gershkovich er 32 ára gamall og starfaði áður fyrir AFP-fréttaveituna og Moscow Times. AP segir að hann sé fréttaritari WSJ í Moskvu og fjalli sem slíkur um Rússland og Úkraínu. FSB staðfesti að hann hefði heimild til að starfa sem blaðamaður frá rússneska utanríkisráðuneytinu.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbrögðum Wall Street Journal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×