Handbolti

Hafa fengið skilaboð frá Gintaras og fleiri hetjum úr gullaldarliði Aftureldingar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Afturelding batt endi á langa bikarbið um helgina.
Afturelding batt endi á langa bikarbið um helgina. vísir/hulda margrét

Leikmenn Aftureldingar hafa fengið góðar kveðjur eftir að þeir urðu bikarmeistarar í handbolta karla, meðal annars frá gömlum hetjum.

Afturelding varð bikarmeistari á laugardaginn eftir sigur á Haukum, 27-28. Þetta var fyrsti bikarmeistaratitill Mosfellinga frá tímabilinu 1998-99 þegar þeir unnu allt sem hægt var að vinna.

Árni Bragi Eyjólfsson var í viðtali í hlaðvarpi Seinni bylgjunnar þar sem hann var meðal annars spurður að því hvort hann myndi eitthvað eftir tímabilinu 1998-99.

„Ekki neitt. Ég var fimm ára, bjó í Bandaríkjunum og vissi ekkert hvað handbolti var,“ sagði Árni Bragi í léttum dúr.

„En það sem gerir þetta svo fallegt og að hetjur úr því liði, Gintaras [Savukynas] og fleiri, búnir að senda okkur skilaboð. Við höfum áður sagt að það sé kominn tími til að vinna titil en þarna var allt að fara gerast til að við næðum að klára þetta þessa helgi.“

Umræddur Gintaras var lykilmaður í þrennuliði Aftureldingar 1998-99 ásamt öðrum litháískum leikmanni, Gintas Galkauskas. Gintaras lék einnig með Gróttu/KR hér á landi og þjálfaði ÍBV. Í dag er hann þjálfari Motor í Úkraínu og litháíska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×