Innlent

Ólöf Kristín nýr forseti FÍ

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ólöf Kristín Sívertsen er nýr forseti Ferðafélags Íslands.
Ólöf Kristín Sívertsen er nýr forseti Ferðafélags Íslands.

Ólöf Kristín Sívertsen hefur verið kjörin forseti Ferðafélags Íslands (FÍ). Fyrrverandi forseti félagsins sagði af sér og sig úr félaginu í september á síðasta ári. 

Fjölmennur aðalfundur félagsins fór fram í gærkvöldi í Mörkinni. Þar var Ólöf, sem fyrr segir, kjörin formaður og Salvör Nordal og Elín Björk Jónasdóttir inn í stjórnina. Einnig var Tómas Guðbjartsson endurkjörinn til þriggja ára.  

„Að leitað væri til mín um að gefa kost á mér í embætti forseta fannst mér mikill heiður – og eftir góða umhugsun ákvað ég að svara því kalli,“ er haft eftir Ólöfu í tilkynningu á vef FÍ.

Ólöf hefur á undanförnum árum tekið virkan þátt í starfi FÍ og meðal annars stýrt lýðheilsuverkefnum hjá félaginu. Hún segir það vera henni mikið í mun að efla grasrótarstarfið, fá fjölskyldur og þá ekki síst börn og unglinga til að stunda útivist og hreyfingu. 

Anna Dóra Sæþórsdóttir var forseti félagsins frá 2021 til 2022 þegar hún sagði af sér. Vísaði hún til þess að stjórn félagsins hafi virt ásakanir um áreitni og kynferðisofbeldi innan félagsins að vettugi. 

„Það er að mínu mati óeðlilegt að stjórnarfólk taki þátt í umræðu og ákvörðunum um vini sína og beiti aðstöðu sinni til að veita þeim sérstaka fyrirgreiðslu,“ segir í færslu Önnu þar sem hún tilkynnti afsögnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×