Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur hækkað meginvexti bankans um eina prósentu – úr 6,5 prósentum í 7,5 prósent – samhliða auknum verðbólguþrýstingi. Hún segir að við þessar aðstæður sé „mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags.“ Vaxtahækkunin, sem er sú tólfta í röð, var heldur meiri en flestir greinendur og markaðsaðilar höfðu spáð fyrir um.
„Það er augljóst að við höfum ákveðið að stíga stór skref núna til að ná tökum á verðbólgu og verðbólguvæntingum og reyna að hraða því að hún fari niður,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kynningu um vaxtaákvörðunina.
Hann benti á að verðbólga hafi verið umfram væntingar í þónokkur skipti. Það sé mikill verðbólguþrýstingur í kerfinu. En nefndi að leiðni peningastefnunnar væri góð. Ekki sé hægt að halda því fram að miðlunarferlið væri „stíflað“ og aðgerðir Seðlabankans hafi því ekki áhrif.
„Það er bara svo margt sem leggst gegn okkur,“ sagði Ásgeir og nefndi mikla eftirspurn sem komi fram í hagvexti og launahækkunum. Stýrivaxtahækkanirnar hafi mikil áhrif. Það sé mikilvægt að grípa til aðgerða strax, stíga stór skref og ná jafnvægi í efnahagslífinu. „Það er ekkert fengið með að bíða.“
Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri sagði það eftirspurn innanlands væri „enn mjög kröftug.“ Það væri ekkert sem bendi til til þess að farið sé hægja á henni. Það sé „mikill þrýstingur alls staðar.“
Hún sagði að í febrúar hafi peningastefnunefnd haft áhyggjur af framkvæmd kjarasamninga á verðbólgu. Af þeim sökum vildi nefndin ekki taka stór skref þá heldur sjá hvernig hver áhrif kjarasamninga yrðu á verðbólgu. Mat nefndarinnar nú sé að verðbólgumæling sýni að hækkunum hafi verið fleytt í verðlag.
Ásgeir sagði að efnahagslífið væri „sjóðandi heitt“. Það væri að sumu leyti jákvætt þótt það væri túlkað sem neikvæð tíðindi fyrir peningastefnu því það þýddi að fyrirtækjum gengi vel að selja vörur og þjónustu og atvinnuleysi sé lítið.
Hann benti á að hærri vextir leiði til þess verkefni með hæstu arðsemina fái forgang. Það ætti ekki að öllu leyti að hafa slæm áhrif.
Aðspurður, í ljósi þess að ekki var minnst á þátt ríkissjóðs í verðbólgunni í yfirlýsingu peningastefnunefndar, sagði Ásgeir að öll hjálp frá fjárlögum ríkisins væri vel þegin. „Við erum ekki að bíða eftir því. Við gerðum að grípa til aðgerða.“
Sömuleiðis var spurt hvers vegna peningastefnunefnd kom ekki inn á vandræði erlendra bankakerfa í yfirlýsingu sinni.
Ásgeir sagði að skuldsetning hérlendis væri tiltölulega lítil. Margir af þeim áhættuþáttum sem eigi við erlendis eigi ekki við hér. Bankakerfið sé með sterka eiginfjárstöðu og tiltölulega íhaldssömum aðferðum sé beitt til að meta eigið fé. Að sama skapi séu skuldabréf bankanna bókfærð á markaðsverði en ekki kostnaðarverði eins og í tilviki erlendra banka sem lentu í erfiðleikum.