Enski boltinn

Vill að Mitro­vić og Fernandes fái tíu leikja bann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Serbneski framherjinn lét ekki segjast og neitaði að fara af velli eftir að fá rauða spjaldið.
Serbneski framherjinn lét ekki segjast og neitaði að fara af velli eftir að fá rauða spjaldið. Simon Stacpoole/Getty Images

Framherjinn fyrrverandi og sparkspekingurinn Chris Sutton situr sjaldan á skoðunum sínum. Hann segir að Aleksandar Mitrović, framherji Fulham, og Bruno Fernandes, miðjumaður Manchester United, eigi að fá 10 leikja bann fyrir framkomu þeirra í garð dómara.

Mitrović sá rautt í 3-1 tapi Fulham gegn Manchester United í FA-bikarkeppninni á sunnudag. Fékk hann rautt spjald fyrir að slá í hendi Chris Kavanagh dómara eftir að sá síðarnefndi hafði rekið Willian af velli fyrir að handleika boltann á marklínunni og Marco Silva, þjálfara liðsins, fyrir að hafa áhrif þegar hann var að skoða atvikið í skjánum á hliðarlínunni.

Ekki nóg með að Mitrović hafi látið reka sig af velli heldur hellti hann úr skálum reiði sinnar yfir dómarann eftir að hann fékk að líta rauða spjaldið.

Þetta segir hinn fimmtugi Chris Sutton ekki boðlegt. Hann lét Fernandes einnig heyra það en Portúgalinn stuggaði við aðstoðardómara í afhroði Man United á Anfield fyrir ekki svo löngu síðan.

„Þetta mun hafa áhrif niður í grasrótarstarfið þar sem það var fjöldinn allur af krökkum að horfa á leikinn. Hann [Mitrović] ætti að fá 10 leikja bann og Bruno Fernandes einnig.“

Mitrović er á leiðinni í hefðbundið þriggja leikja bann en það gæti farið svo að enska knattspyrnusambandið þyngi bannið vegna hegðunar hans í kjölfar spjaldsins. Bruno fékk ekki spjald gegn Liverpool og er ekki á leiðinni í bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×