Enski boltinn

„Vorum klár­lega betra liðið“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marco Silva var fyrstur að fjúka hjá Fulham er liðið hrundi á Old Trafford.
Marco Silva var fyrstur að fjúka hjá Fulham er liðið hrundi á Old Trafford. Simon Stacpoole/Getty Images

Marco Silva, þjálfari Fulham, sagði lið sitt hafa verið betra en Manchester United þegar liðin mættust í 8-liða úrslitum FA-bikarkeppninnar í gær, sunnudag. Silva, sem og tveir leikmenn Fulham, voru sendir í sturtu þegar Fulham var 1-0 yfir í leiknum. Gekk Man United á lagið eftir það og vann 3-1 sigur.

Eftir markalausan fyrri hálfleik komust gestirnir í Fulham yfir þökk sé Serbanum með markanefið, Aleksandar Mitrović. Það mark kom á 50. mínútu og voru gestirnir með tögl og haldir á vellinum.

Þegar stundarfjórðungur lifði leiks gerðust hins vegar ótrúlegir hluti. Brasilíumaðurinn Willian varði boltann með hendi á marklínu. Dómari leiksins fór á endanum og skoðaði atvikið í skjánum á hliðarlínunni. Marco Silva kom askvaðandi og virðist hafa látið nokkur vel valin orð falla. Var hann samstundis rekinn af velli.

Í kjölfarið fékk Willian rautt spjald fyrir að koma í veg fyrir mark og þá fékk Mitrović rautt spjald fyrir að tryllast og slá í hendi Chris Kavanagh dómara. 

Bruno Fernandes skoraði út vítaspyrnunni og örskömmu síðar hafði Marcel Sabitzer komið Man United yfir. Aðeins voru 265 sekúndur frá því að Willian var sendur í sturtu og að Man Utd var komið yfir.

„Við vorum klárlega betri aðilinn þangað til þeir fengu vítaspyrnu og við rautt spjald. Við berum virðingu fyrir Manchester United en við vorum klárlega betra liðið,“ sagði Silva í viðtali eftir leik.

„Það sem er erfitt að skilja er að tvívegis í fyrri hálfleik, þar sem í annað skiptið var klárlega brotið á Mitrović í annað skiptið, þá fór enginn í skjáinn. Af hverju skoðaði engin þau atvik,“ spurði Silva aðspurður út í rauðu spjöldin og vítaspyrnudóminn.

„Ef þú spyrð hvort ég sé ánægður með það sem ég gerði þá er svarið hreint og beint nei. En ef þú spyrð mig hvort ég hafi verðskuldað rautt spjald, þá efast ég um það. Væri til í að vita hvað dómarinn skrifar í skýrsluna að ég hafi sagt við hann,“ sagði Silva að endingu um rauða spjaldið sem hann fékk.

Manchester United vann leikinn á endanum 3-1 og er komið í undanúrslit FA-bikarkeppninnar þar sem liðið mætir Brighton & Hove Albion.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×