Innlent

Styrkja Mat­væla­á­ætlun SÞ vegna ham­faranna í Malaví

Atli Ísleifsson skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld treysti fáum betur en Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna til að koma framlaginu til þeirra sem þurfa mest á því að halda.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld treysti fáum betur en Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna til að koma framlaginu til þeirra sem þurfa mest á því að halda. Vísir/Ívar Fannar

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að verja hálfri milljón Bandaríkjadala, jafnvirði 71 milljón króna, til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna vegna neyðarástandsins sem skapast hefur í Malaví af völdum hitabeltisstormsins Freddy.

Alls hafa verið staðfest 324 dauðsföll í Malaví af völdum óveðursins og 160 þúsund manns hafa misst heimili sín.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að framlagið muni nýtast stjórnvöldum í Malaví til björgunaraðgerða, við flutning á neyðargögnum og til þess að kaupa mat fyrir þær þúsundir sem reiða sig á matvælastuðning eftir hamfarirnar.

Haft er eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra að þegar óvænt neyð skapist í samstarfsríki, eins og í þessu tilviki, þá kalli það á skjót viðbrögð.

„Við treystum fáum samstarfsaðilum betur en Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, til að koma framlaginu til þeirra sem þurfa mest á því að halda,“ segir Þórdís Kolbrún.

Alls hafa verið staðfest 324 dauðsföll í Malaví af völdum óveðursins og 160 þúsund manns hafa misst heimili sín.EPA

Fram kemur að sendiráð Íslands í malavísku höfuðborginni Lilongwe hafi langa og góða reynslu af samstarfi við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna í Malaví. Stofnunin sé jafnframt áherslustofnun Íslands í mannúðarmálum.

„Malaví hefur verið tvíhliða samstarfsland Íslands í 33 ár. Í desember síðastliðnum sótti utanríkisráðherra landið heim og sá meðal annars afrakstur samstarfsverkefna Íslands og Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í landinu. Í tvíhliða samstarfslöndum reynir Ísland eftir bestu getu að veita neyðaraðstoð þegar hamfarir ganga yfir,“ segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þá er haft eftir Paul Turnbull, umdæmisstjóra Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, að starfsmenn bregðist við eins og hratt og mögulegt sé við þessar aðstæður. Hversu víðtækar afleiðingar þessar náttúruhamfarir hafi í Malaví komi ekki í ljós fyrr en úttekt á því liggi fyrir, en að ljóst sé að Malaví þurfi verulegan stuðning.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×