Handbolti

Einar Jónsson: Ég náði bara ekki að finna lausnir

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Brúnaþungur Einar Jónsson á hliðarlínunni í kvöld.
Brúnaþungur Einar Jónsson á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Snædís Bára

Fram er úr leik í Powerade bikarnum. Sannfærandi tap í undanúrslitum í Laugardalshöll í kvöld gegn Haukum kom í veg fyrir að Framarar færu lengra þetta árið. Lokatölur 24-32 Haukum í vil og eru þeir því komnir í úrslitaleik á laugardaginn.

„Haukarnir voru bara fyrir það fyrsta betri en við í handbolta í dag. Þeir litu bara miklu betur út en við,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, að leik loknum.

Fram sigraði Hauka með fimm mörkum fyrir tveimur vikum en leikurinn í kvöld var gjörólíkur þeim leik.

„Það er himin og haf á milli þessara leikja síðan við spiluðum við þá síðast. Við bara náðum ekki þessu flæði andlega sem maður var að vonast eftir. Ég tek það bara á mig að hafa ekki getað stillt liðið almennilega inn á þennan leik, það er oft kúnst að gera það. Hvort við vorum yfirspenntir eða of rólegir eða of miklar væntingar eða litlar, það er erfitt að koma fingri á það beint eftir leik. Heilt yfir vorum við bara ekki góðir, en tek ekkert af Haukunum. Mér fannst þeir frábærir í kvöld og eiga skilið að vera komnir í úrslitaleik og óska þeim til hamingju með það,“ sagði Einar.

Staðan var 11-13 í hálfleik en í síðari hálfleik voru Haukar með öll tök á leiknum og Fram sá varla til sólar.

„Það munaði tveimur mörkum í hálfleik og við vorum bara klaufar að vera ekki bara með jafnt í hálfleik. Það var bara svolítið lýsandi dæmi fyrir það, við vorum í ströggli eiginlega allan leikinn. Mér fannst flæðið í sóknarleiknum lélegt og það bara var þannig í seinni hálfleiknum líka. Þeir voru bara miklu massívari en við og spiluðu mun líkamlegra og við hörfuðum að ákveðnu leiti. Ég náði bara ekki að finna lausnir, það er bara þannig. Ég hefði þurft að keyra betur á þetta og leyst vandamálin sem voru inn í leiknum en því miður gekk það ekki,“ sagði Einar niðurlútur.

Einar óskaði Haukum að lokum til hamingju með að vera komnir í úrslitaleikinn.

„Þeir eiga bara heiður skilið, þeir voru bara góðir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×