Enski boltinn

„Ef Liver­pool vill fá Belling­ham þá þarf Stevi­e G að synda yfir Ermar­sundið til að ná í hann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham er eftirsóttur í Evrópu og Liverpool stuðningsmönnum dreymir um að fá hann.
Jude Bellingham er eftirsóttur í Evrópu og Liverpool stuðningsmönnum dreymir um að fá hann. Getty/Richard Heathcote

Rio Ferdinand segir frammistöðu Liverpool liðsins á þessu tímabili ekki vera góða auglýsingu ætli liðið að sannfæra enska landsliðsmiðjumanninn Jude Bellingham um að koma til félagsins.

Framtíð Liverpool var til umræðu á BTsport í gær eftir að Liverpool datt út úr Meistaradeildinni 6-2 samanlagt á móti Real Madrid.

Liverpool liðið tapaði einnig um helgina og nú eru líkurnar ekki miklar á því að liðið verði hreinlega með í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Liverpool hefur lengi haft mikinn áhuga á Bellingham en fær mikla samkeppni frá helstu stórliðum heims eftir magnaða frammistöðu stráksins með bæði Dortmund og enska landsliðinu.

Rio Ferdinand, goðsögn úr vörn hjá sigursælum liðum Manchester United er ekki bjartsýnn fyrir hönd Liverpool um að fá Bellingham til að bjarga dapri miðju liðsins.

„Ef Liverpool vill fá Bellingham þá þurfa þú og Stevie G að synda yfir Ermarsundið til að ná í hann,“ sagði Rio Ferdinand í léttum tón en alvarleiki málsins var að hann telur engar líkur á því að Bellingham vilji spila fyrir Liverpool liðið eins og það lítur út í dag.

„Ég held að ef hann hefur verið að horfa á leikinn í kvöld og veit að bæði Real Madrid og Liverpool hafi áhuga á honum þá sé bara eitt lið sem komi til greina fyrir hann,“ sagði Ferdinand.

„Svo missa þeir kannski af Meistaradeildinni en kannski ekki. Ég er ekki að segja þetta sem fyrrum leikmaður Manchester United heldur verður þú sem leikmaður að horfa blákalt á hlutina. Ég sé fleiri bikara hér,“ sagði Rio Ferdinand.

Ferdinand var þarna með Peter Crouch og Michael Owen, sem báðir hafa spilað með Liverpool. Það má sjá spjallið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×