Handbolti

Ágúst: Starfið á Hliðarenda í kvennaboltanum er frábært

Andri Már Eggertsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Ágúst Þór Jóhannsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Vilhelm

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, var ánægður með níu marka sigur á Haukum 19-28 í undanúrslitum Powerade-bikarsins. 

„Við spiluðum mjög vel. Spiluðum góða vörn og vorum að keyra allan tímann. Uppstilltur sóknarleikur var líka góður hjá okkur og við skiluðum okkur einnig vel til baka. Frammistaðan í kvöld var mjög góð og ég var ánægður með stelpurnar,“ sagði Ágúst í samtali við Vísi eftir leik. 

Liðin skiptust á mörkum til að byrja með og var jafnræði með liðunum fyrsta korterið en síðan hrökk Valur í gang.

„Við spiluðum betri vörn á Elínu Klöru sem er hrikalega góður leikmaður. Við fórum að tvídekka hana og þær fengu ekki framlag frá mörgum öðrum. Sara Odden skoraði nokkur mörk en annars var varnarleikurinn góður og okkur tókst að keyra vel á þær. Haukar eru góðar í annarri og þriðju bylgju en okkur tókst að skila vel til baka sem var mikilvægt.“

Valur gaf ekkert eftir í seinni hálfleik og Haukar áttu aldrei möguleika á að koma til baka.

„Við töluðum um það í hálfleik að byrja síðari hálfleik vel og fyrstu tíu mínúturnar voru mikilvægar upp á það að gera í hvora átt leikurinn myndi fara og við gerðum vel strax í upphafi síðari hálfleiks.“ 

„Ég rúllaði vel á liðinu og það voru margar stelpur sem eru meðal annars í þriðja og fjórða flokki sem fengu mínútur. Breiddin í Val er mikil og starfið í kvennaboltanum er mjög gott. Við erum með fimmta, fjórða, þriðja og meistaraflokk í bikarúrslitum sem sýnir að starfið á Hlíðarenda er frábært.“

„Auðvitað var gott að geta gefið ungum stelpum svona reynslu og að koma inn á í svona leik er á við að spila fimmtíu til hundrað deildarleiki,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×