Enski boltinn

West Ham úr fallsæti eftir jafntefli gegn Villa

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn liðanna ræða við Chris Kavanagh dómara leiksins.
Leikmenn liðanna ræða við Chris Kavanagh dómara leiksins. Vísir/Getty

West Ham og Aston Villa gerðu 1-1 jafntefli þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Fyrir leikinn í dag var West Ham í fallsæti deildarinnar með 23 stig en Aston Villa um miðja deild með 34 stig.

Það eru þó lærisveinar David Moyes í West Ham sem eru eflaust svekktari með niðurstöðu leiksins. West Ham fékk betri færi í leiknum í dag en gerðu ekki nógu vel í sínum tækifærum.

Ollie Watkins kom Aston Villa yfir á 17. mínútu þegar hann skoraði eftir sendingu frá Alex Moreno. Á 26. mínútu var síðan dæmd vítaspyrna á Villa. Dómurinn var staðfestur í VAR og það var Said Benrahma sem fór á punktinn og skoraði.

Staðan í hálfleik 1-1 og í seinni hálfleik reyndi heimaliðið hvað það gat til að bæta við marki. Benrahma fékk gott færi þegar skammt var eftir en Ashley Young varðist vel og komst fyrir skot hans. Lokatölur 1-1 og það mátti heyra stuðningsmenn West Ham baula á liðið í leikslok.

West Ham er þó komið upp úr fallsæti eftir jafnteflið. Þeir eru með jafnmörg stig og Bournemouth en betri markatölu. Aston Villa er í ellefta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×