Viðskipti innlent

Vörður tapaði 737 milljónum króna

Máni Snær Þorláksson skrifar
Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, segir rekstrarniðurstöðuna vonbrigði.
Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, segir rekstrarniðurstöðuna vonbrigði. Aðsend

Tryggingafélagið Vörður tapaði 737 milljónum króna árið 2022. Neikvæð afkoma skýrist samkvæmt fyrirtækinu einkum af óhagstæðum aðstæðum á verðbréfamarkaði. Forstjóri Varðar segir rekstrarniðurstöðuna vera vonbrigði.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu félagsins fyrir árið 2022. Í tilkynninginnu segir að aðstæður á verðbréfamarkaði hafi ollið lækkun á öllum helstu eignaflokkum, það hafi skilað sér í þriggja milljarða króna neikvæðum viðsnúningi í fjáreignatekjum frá fyrra ári. 

Þá hafi árið einnig verið markað af óvenju miklum tjónum. Tjónakostnaður hjá tryggingafélaginu jókst um 26 prósent milli ára.

Afkoman lituð af ytri aðstæðum

Um er að ræða fyrsta tap á rekstri Varðar frá árinu 2008. Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, segir í tilkynningu að almenn starfsemi félagsins hafi gengið vel í fyrra en að rekstrarniðurstaðan sé vonbrigði. Hann segir einnig að 26 prósenta hækkun á tjónakostnaði milli ára sé óvanaleg.

„Afkoma síðasta árs er því lituð af ytri aðstæðum sem erfitt var að sjá fyrir. Þrátt fyrir tímabundinn mótbyr er framtíðin björt. Grunnur félagsins er góður, fjárhagur traustur og ímynd og staða á markaði jákvæði. Viðskiptavinum fjölgar ár frá ári og framundan eru ótal tækifæri til að láta félagið vaxa og dafna,“ segir forstjórinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×