Lífið

Topol er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Topol fór með hlutverk Tevye að minnsta kosti 3.500 sinnum, bæði í kvikmyndum og á sviði.
Topol fór með hlutverk Tevye að minnsta kosti 3.500 sinnum, bæði í kvikmyndum og á sviði. Getty

Ísraelski leikarinn Chaim Topol, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem Tevye í stórmyndinni Fiðlarinn á þakinu frá árinu 1971, er látinn. Hann varð 87 ára gamall.

Isaac Herzog Ísraelsforseti staðfesti andlátið á Twitter í gær þar sem hann sagði leikarann vera einn af risum ísraelsks menningarlífs.

Sky News segir frá því að Topol hafi glímt við vanheilsu síðustu ár og greinst með heilabilun á síðasta ári.

Topol fæddist 1935 í Tel Aviv og sló í gegn sem leikari með hlutverki í gamanmyndinni Sallah Shabati frá árinu 1964. Hann vann til Golden Globe verðlauna fyrir hlutverkið.

Hann vann svo aftur til Golden Globe verðlauna fyrir hlutverk sitt í Fiðlaranum á þakinu 1971, auk þess að vera tilnefndur til Óskarsverðlauna. Hann fór svo áfram með hlutverkið á leiksviði í London um árabil og síðar Broadway í New York. Fram kemur að hann hafi farið með hlutverkið 3.500 sinnum.

Topol fór einnig með hlutverk í myndinni Flash Gordon frá árinu 1980 og svo hlutverk Milos Columbo í James Bond-myndinni For Your Eyes Only árið 1981.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×