Fótbolti

Rekinn fyrir að gera lítið úr kynferðisbroti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Abdel Bouhazama sést hér stýra Angers á móti stórliði Paris Saint-Germain.
Abdel Bouhazama sést hér stýra Angers á móti stórliði Paris Saint-Germain. Getty/Tim Clayton

Franska fótboltafélagið Angers rak í gær þjálfara sinn Abdel Bouhazama. Ástæðan er ekki bara slæmt gengi liðsins.

Angers er í botnbaráttunni í frönsku 1. deildinni og tapaði 5-0 á móti Montpellier um síðustu helgi. Það var hins vegar ræða hans fyrir leik sem er sögð hafa gert útslagið

Bouhazama virtist gera lítið úr kynferðisbroti þegar hann talaði við leikmenn sína fyrir leikinn.

„Þetta er ekki það alvarlegt. Við höfum allir snert stelpur,“ var haft eftir Abdel Bouhazama í liðsræðu hans.

Hann tók svona til orða til að réttlæta það að Ilyes Chetti væri í byrjunarliðinu.

Chetti hefur verið ákærður um kynferðisárás á konu á næturklúbbi í síðasta mánuði.

Angers gaf út yfirlýsingu þar sem sagði að þjálfarinn hafi verið búinn að ákveða að hætta áður en hann lét þetta út úr sér.

Það fer hins vegar ekkert á milli mála að mikil fjölmiðlaumfjöllun hafði mikil áhrif eftir að orðum hans var leikið í fjölmiðla.

Angers hefur hins vegar fordæmt ummælin og sjálfur hefur beðist afsökunar á þeim ekki síst til kvenkyns kollega sinna.

Angers situr í botnsæti í deildinni með 10 stig þegar aðeins tólf leikir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×