Innlent

Krefst þess að lög­reglan biðjist af­sökunar

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Þórður Magnússon krefst þess að fá afsökunarbeiðni frá lögreglunni.
Þórður Magnússon krefst þess að fá afsökunarbeiðni frá lögreglunni. Stöð 2

Sex ára rannsókn á máli sem lögreglan kynnti sem eitt umfangsmesta fíkniefna og peningaþvættismál sögunnar er lokið án þess að gefin verði út ákæra. Fyrrverandi sakborningur í málinu krefst afsökunarbeiðni. 

Það var í desembermánuði árið 2017 sem Europol tilkynnti að samræmdar aðgerðir ákæruvalds og lögreglu í Póllandi, Hollandi og á Íslandi hafi upprætt alþjóðlegan glæpahring sem tengdur væri fíkniefnaviðskiptum og framleiðslu, fjársvikum og peningaþvætti.

Í kjölfarið boðaði lögreglan ásamt Tollstjóra, Europol, Eurojust og pólsku lögreglunnar til umfangsmikils blaðamannafundar í Rúgbrauðsgerðinni. Á blaðamannafundinum kom fram að mikið magn efna til framleiðslu á fíkniefnum hafi verið haldlagt ásamt því að eignir hafi verið frystar.

Málið var fljótlega kennt við verslanirnar Euro market, en sumir þeirra grunuðu komu að rekstri verslanana.

Fimm voru handteknir hér á landi og þrír úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þá bættist íslenskur maður, Þórður Magnússon, við hóp sakborninga í málinu. Hann segist hafa orðið fyrir miklum óþægindum vegna málsins.

„Ég bý í 850 manna þorpi. Þar mæta fimm lögreglubílar og þrettán lögreglumenn frá Reykjavík plús öll lögreglan á Snæfellsnesi. Þeir gerðu samhæfða árás á heimili mitt og fyrirtækið mitt. Ráðist inn í bankann með einhverja heimild til þess að bora út bankahólfið mitt.“

Rekstur Þórðar varð líka fyrir tjóni og hann þurfti að berjast fyrir því að halda tengslum við sína viðskiptavini.

„Ég þurfti að hringja í hvert einasta fyrirtæki og segja þeim hvernig í potttinn var búið. Þessi fyrirtæki skipta ekki við menn sem eru grunaðir um að vera tengdir stærsta fíkniefnainnflutningi Íslands.“

Fyrir nokkrum dögum fengu allir sakborningarnir á Íslandi senda staðfestingu þess efnis að rannsókn málsins yrði ekki haldið áfram og að ekki yrði gefin út ákæra í málinu.

Tilkynning um niðurfellingu málsins var send þann 22. febrúar síðastliðinn.Stöð 2

Þórður segist vilja að málið endi eins og það byrjaði.

„Ég vil að þeir haldi annan fréttamannafund, þar sem þeir biðjast afsökunar. Ég veit að það gerist ekki. Ég myndi láta allt niður falla fyrsta dag ef ég fengi afsökunarbeiðni. Ég veit það gerist ekki. Þannig að núna þarf ég sennilega að þvinga fram afsökunarbeiðni með því að fara í skaðabótamál á hendur ríkinu þar sem skaðabótakrafan verður vægast sagt mjög hógvær, því þetta snýst ekki um peninga heldur snýst þetta um að ég verði hreinsaður af þessum áburði sem að lögreglan stóð fyrir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×