Viðskipti innlent

Vilja Hopp-hjól í um­ferð á Hellu, Hvols­velli, Snæ­fells­nesi og Trölla­skaga fyrir sumarið

Atli Ísleifsson skrifar
Eyþór Máni Steinarsson er framkvæmdastjóri og einn eigenda Hopp rafhlaupahjólaleigunnar. Hann er mjög spenntur að sjá Hopp-hjónin á götum heimabæjarins Hellu.
Eyþór Máni Steinarsson er framkvæmdastjóri og einn eigenda Hopp rafhlaupahjólaleigunnar. Hann er mjög spenntur að sjá Hopp-hjónin á götum heimabæjarins Hellu. Vísir/Vilhelm

Stefnt er að því að koma Hopp-hjólum í umferð á Hellu, Hvolsvelli, Stykkishólmi, Grundarfirði, Ólafsvík, Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík fyrir sumarið.

Þetta staðfestir Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Hopp rafhlaupahjólaleigunnar, í samtali við Vísi. Hann segir að sérleyfishafar á hverjum stað fyrir sig vinni nú að því að fá leyfi hjá viðkomandi sveitarfélögum fyrir rekstri á leyfi fyrir rafhlaupahjólaleigu.

„Við verðum þá komin með Hopp í líklega öllum byggðakjörnum á landinu þar sem íbúar eru þúsund eða fleiri. Og eins og með Hellu þá verður það mikill persónulegur sigur fyrir mig,“ segir Eyþór Máni sem ólst upp í bænum.

Hann segir að reynslan sýni að meirihluti þeirra sem nota Hopp-hjólin noti þau í ferðir sem eru tveir kílómetrar eða styttri. „Þannig að þessi fararmáti myndi henda mjög vel á þessum stöðum.“

Eyþór Máni segir að sérleyfishafarnir sem vinna nú að því að sækja um tilskilin leyfi, komi úr ýmsum áttum, meðal annars úr ferðaþjónustu.

„En það er þannig að við erum ekki að tala um að hægt sé að ferðast milli byggðakjarna eins og í Fjallabyggð. Menn munu ekki geta ferðast á Hopp-hjóli milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar í gegnum Héðinsfjarðargöng. Við erum að tala um innanbæjar.“

Hopp-hjól eru nú þegar í rekstri á fimmtán stöðum á landinu – á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri, Selfossi, Hveragerði, Vestmannaeyjum, Akranesi, Egilsstöðum, Reykjanesbæ, Grindavík, Ísafirði, Borgarnesi, Húsavík, Blönduósi, Vík og Höfn.


Tengdar fréttir

24 ára milljónamæringur: Með eitt par af hnífapörum, einn disk og örbylgjuofn

„Ég var með einn gaffal, einn hníf, einn disk og örbylgjuofn. Ég vaskaði upp þegar að ég fór í sturtu í áhaldageymslunni í kjallaranum,“ segir Eyþór Máni Steinarsson framkvæmdastjóri og einn af eigendum Hopp rafhlaupahjólaleigunnar þegar hann rifjar upp fyrstu misserin sín í Reykjavík. Þá rétt að verða 16 ára, á leigumarkaði og í skóla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×