Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin í jafntefli Keflavíkur og Fylkis | Blikar skoruðu átta á Króknum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Agla María skoraði fjögur á Sauðárkróki
Agla María skoraði fjögur á Sauðárkróki Vísir/Hulda Margrét

Íslenskt knattspyrnufólk reimaði á sig markaskóna í Lengjubikarnum í dag þar sem fjölmörg mörk litu dagsins ljós í A-deildum karla og kvenna.

Leikur Keflavíkur og Fylkis var sýndur beint á Stöð 2 Sport og hér fyrir neðan gefur að líta myndban með mörkum úr leiknum.

Klippa: Mörkin úr leik Keflavíkur og Fylkis í Lengjubikarnum

Keflavík er á toppi riðils 4 en í sama riðli fóru tveir leikir fram á Akureyri í dag. Í Boganum beið Þór lægri hlut fyrir Fjölni þar sem Marc Rochester Sorensen kom heimamönnum í forystu áður en Bjarni Gunnarsson og Bjarni Hafstein skoruðu fyrir Grafarvogsliðið. Á sama tíma vann KA öruggan sigur á Þrótti, 5-0, þar sem Pætur Petersen skoraði tvö mörk; Hallgrímur Mar Steingrímsson, Harley Willard og Daníel Hafsteinsson sitt markið hver.

Í riðli 3 skildu B-deildarliðin Grótta og Afturelding jöfn, 1-1 þar sem Patrik Orri Pétursson og Bjarni Páll Linnet Runólfsson voru á skotskónum

Græn markasúpa á Sauðárkróki

Breiðablik fór illa með Tindastól í riðli 2 kvennamegin þar sem Agla María Albertsdóttir skoraði fjögur mörk en Andrea Rut Bjarnadóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir og Taylor Marie Ziemer gerðu sitt markið hver í 8-0 sigri Breiðabliks en eitt markið var sjálfsmark heimakvenna.

Í sama riðli vann Stjarnan 1-2 sigur á Aftureldingu með mörkum Andreu Mist Pálsdóttur og Gyðu Kristínar Gunnarsdóttur en Sigrún Eva Sigurðardóttir gerði mark Mosfellinga.

Í riðli 1 vann Þór/KA útisigur á KR, 1-3, þar sem Sandra María Jessen, Hulda Ósk Jónsdóttir og Amalía Árnadóttir sáu um markaskorun Norðankvenna en mark KR var sjálfsmark.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×