Innlent

„Pollró­­legur“ rostungur vekur lukku á Breið­dals­vík

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Rostungurinn kippti sér ekki mikið upp við gesti og gangandi.
Rostungurinn kippti sér ekki mikið upp við gesti og gangandi. Guðlaugur Jón Haraldsson

Rostungur spókaði sig „pollrólegur“ á flotbryggjunni á Breiðdalsvík í dag. Gestir og gangandi fylgdust með dýrinu í dag en að sögn íbúa var rostungurinn slakur og rólegur. Matvælastofnun biður fólk að fara varlega.

„Hann er ekki kominn með neitt nafn, það reyndu einhverjir að gefa honum síld en hann vildi hana ekki,“ segir Guðlaugur Jón Haraldsson sem náði myndum af rostungnum í dag.

„Hann er pollrólegur og sat á sama stað allan tímann. Mikið aðdráttarafl, fólk hópaðist saman að honum en hann var mjög slakur og rólegur,“ segir Guðlaugur Jón enn fremur.

Dýravakt Matvælastofnunar segir að dýrið virðist ekki vera slasað. Rostungurinn gæti verið að hvíla sig eftir langt ferðalag og átök. Áhugasamir eru beðnir um að hætta sér ekki of nálægt dýrinu.

„Ráðleggingar frá Matvælastofnun lúta því að því að ekki undir neinum kringustæðum fara nær dýrinu en 20 metra og allra helst halda fjarlægð sem nemur 50-100 m. Öll nálgun nær en 50 m stressar dýrið og allt sem er nær en sem nemur 20 metrum stressar dýrið mjög mikið og getur haft verulega neikvæð áhrif á heilsu þess og líðan.“

Þá sé einnig rétt að geta þess að rostungar geti hreyft sig hrat og valdið skaða á fólki og dýrum. Spendýrin geti einnig borið smitefni sem geti verið varasöm fyrir fólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×