Erlent

Fyrsti bylur Los Angeles í 34 ár

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þessi litli snjókarl er einn sá fyrsti í sýslunni í mörg ár.
Þessi litli snjókarl er einn sá fyrsti í sýslunni í mörg ár. Getty/Mario Tama

Í fyrsta sinn í 34 ár er byl spáð í Los Angeles. Veðurfræðingar í borginni voru forviða í fjölmiðlum í vikunni þar sem þeir höfðu aldrei nokkurn tímann séð slíka viðvörun á ferli sínum. 

Meðalhitastig í Los Angeles í febrúarmánuði er venjulega í kringum fimmtán gráður. Nú er þó mikið kuldakast í kortunum og fyrsta bylnum í tugi ára er spáð. 

Kalda veðrið nær yfir mest alla vesturströnd Bandaríkjanna og upp til Kanada. Bylsviðvörunin verður í gildi við fjöllin í Ventura-sýslu og Los Angeles-sýslu frá því í dag og fram til morgundagsins. 

Snjókomunni munu fylgja harðir vindar en í gær var ákveðið að loka fjölmörgum grunnskólum í norðvesturhluta Los Angeles-sýslu vegna veðursins. 

„Ég verð að vera alveg hreinskilinn við ykkur. Ég hef aldrei nokkurn tímann séð bylsviðvörun áður,“ hefur BBC eftir veðurfræðingi í borginni. „Þetta er fyrsti snjódagurinn í þau rúm þrjátíu ár sem ég hef verið að vinna fyrir skólana á svæðinu,“ sagði Jeff Napier, yfirmaður hjá grunnskólunum í Del Norte-sýslu. 

Snjór í Los Angeles er ekki algeng sjón.Getty/Mario Tama



Fleiri fréttir

Sjá meira


×