Íslenski boltinn

Kom sérstaklega við í Grindavík vegna tölvu­leiks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gulur og glaður.
Gulur og glaður. Reddit

Englendingurinn Jay gerði sér ferð frá Englandi til Grindavíkur vegna þess eins að hann hafði náð eftirtektarverðum árangri með Grindavík í tölvuleiknum Football Manager. Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri Grindavíkur, tók vel á móti kauða.

Jay birti færslu með tveimur myndum á miðlinum reddit þar sem hann fór yfir ferð sína til Íslands. Þar segist hann hafa farið til smábæjarins til að sjá félagið sem hann hafi spilað hvað lengst sem í Football Manager. Þá þakkaði hann framkvæmdastjóranum og starfsliði félagsins kærlega fyrir móttökurnar.

Í Football Manager geta spilarar sest í þjálfarastól nær allra liða í knattspyrnuheiminum, allavega karla megin. Jay segir ekki hversu lengi hann hafi stýrt Grindavík í leiknum en hann var þó grátlega nálægt því að vinna Bestu deildina á sínu fyrsta tímabili í deild þeirra bestu.

Jay gat því ekki annað en haft samband við Grindavík þegar hann var staddur hér á landi með eiginkonu sinni. Hann fékk jákvæð svör frá félaginu og mætti á svæðið, tók það út og fór glaður heim á leið með bæði keppnistreyju sem og barmmerki. 

Mögulega tekst Grindavík í sumar að gera það sem Jay tókst, að komast upp í Bestu deildina. Grindvíkingar mæta ÍA á Akranesi í 1. umferð Lengjudeildar karla þann 5. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×