Innlent

Læstur sími gerir lög­reglunni erfitt fyrir

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Maðurinn hefur ekki fengist til að gefa lögreglu lykilorðið á símanum.
Maðurinn hefur ekki fengist til að gefa lögreglu lykilorðið á símanum. Vísir/Vilhelm/Getty

Karlmaður sem stöðvaður var í Leifsstöð með tæpar fjórtán þúsund evrur meðferðis hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald. Lögregla fékk heimild til að haldleggja síma mannsins sem neitar að gefa lögreglunni lykilorðið.

Maðurinn var stöðvaður á leið úr landi fyrr í þessum mánuði. Við skoðun á vegabréfi mannsins kom í ljós að hann hafði dvalið á Íslandi í þrjá mánuði síðustu 180 daga og var því ákveðið að færa hann til frekari skoðunar. 

Við leit á manninum fundust evrurnar, samtals 13.871. Lögregla segir hann hafa gefið ótrúverðugar skýringar á uppruna peninganna en hann sagðist sjálfur hafa komið með þá til landsins í nóvember 2022. Lögregla grunar manninn um peningaþvætti.

Lögregla hefur ráðist í ýmiss konar rannsóknaraðgerðir; aflað úrskurða um afléttingu bankaleyndar og heimildar til afritunar og rannsóknar á síma mannsins, sem enn neitar að segja lykilorðið á símanum.

Frumrannsókn leiddi í ljós að maðurinn hafi tólf sinnum keypt evrur hér á landi fyrir tæplega tvær milljónir króna. Maðurinn kvaðst lítið kannast við það en sagðist hafa keypt íslensku krónurnar á svörtum markaði áður en hann kom til landsins.

Héraðsdómur Reykjaness staðfesti kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum í vikunni með vísan til þess að enn væru órannsökuð mikilvæg atriði, þar á meðal gögn úr síma mannsins. Auk þess væri ekki útilokað að maðurinn kynni að setja sig í samband við hugsanlega vitorðsmenn gengi hann laus. 

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms fyrr í dag með vísan til forsendna héraðsdóms. Úrskurðurinn gildir fram á föstudag, 24. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×