Erlent

Fyrr­verandi starfs­maður hand­tekinn vegna dráps á biskupi

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona leggur blóm og innrömmuð skilaboð við lögregluborða utan um heimili Davids O'Connells, aðstoðarbiskups, sem fannst skotinn til bana á laugardag.
Kona leggur blóm og innrömmuð skilaboð við lögregluborða utan um heimili Davids O'Connells, aðstoðarbiskups, sem fannst skotinn til bana á laugardag. AP/Damian Dovarganes

Karlmaður sem lögreglan í Los Angeles í Bandaríkjunum handtók í tengslum við morð á þekktum biskupi er eiginmaður þernu biskupsins og hafði sjálfur unnið fyrir hann. Lögregla rannsakar enn tilefni morðsins.

David O'Connell, aðstoðarbiskup í Los Angeles-erkibiskupsdæmi kaþólsku kirkjunnar, fannst skotinn til bana í svefnherbergi heimili síns í Hacienda Heights, úthverfi stórborgarinnar, á laugardag. Hann hafði meðal annars helgað sig baráttu gegn glæpagengjum.

Sérsveit lögreglu handtók Carlos Medina, eiginmann þernu O'Connells, á heimili þeirra í Torrance sem er um 55 kílómetrum frá heimili biskupsins, að sögn AP-fréttastofunnar. Böndin bárust fyrst að Medina þegar rannsóknarlögreglumenn sáu bifreið hans í innkeyrslunni við hús O'Connells um það leyti sem hann var myrtur á upptöku öryggismyndavélar.

Þá barst lögreglu ábending um að Medina, sem er 65 ára gamall, hafi sýnt af sér undarlega hegðun og talað um að O'Connell skuldaði honum fé.

Engin ummerki fundust um að brotist hefði verið inn til O'Connells. Eiginkona Medina er sögð samvinnufús við lögreglu. Vopn fundust á heimili þeirra hjóna.

Robert Luna, lögreglustjórinn í Los Angeles-sýslu, (t.h.) faðmar José H. Gomez, erkibiskup, á blaðamannafundi lögreglu vegna morðsins á O'Connell í gær.AP/Damian Dovarganes

O'Connell, sem fæddist á Írlandi, er sagður samfélaginu á svæðinu harmdauði. Nágrannar og safnaðarmeðlimir hafa skilið eftir blóm og kerti við lögregluborða utan um heimili hans í Hacienda Heights. José H. Gomez, erkibiskupinn í Los Angeles-sýslu, segir O'Connell hafa talað spænsku reiprennandi með írskum hreim. Hann hafi alla tíð sýnt fátækum, heimilislausum, innflytjendum og jaðarsettum í samfélaginu hluttekningu.

„Hann var góður prestur, góðu biskup og maður friðar og við erum mjög hrygg að missa hann,“ sagði Gomez klökkur við fréttamenn.

Fintan Gavin, biskup í Cork og Ross á Írlandi, sagði söfnuðinn þar sleginn yfir dauða O'Connells. Hann hafi ræktað tengslin við fjölskyldu og vini í gamla landinu.


Tengdar fréttir

Telja að biskup hafi verið myrtur í Los Angeles

Lögreglan í Los Angeles-sýslu rannsakar lát kaþólsks biskups á laugardag sem morð. Biskupinn var skotinn til bana á heimili sínu og byssumaðurinn eða mennirnir ganga enn lausir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×