Lífið

Bróðir Hayden Panetti­ere látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Systkinin Jansen og Hayden Panetti­ere á saman viðburði árið 2013.
Systkinin Jansen og Hayden Panetti­ere á saman viðburði árið 2013. Getty

Bandaríski leikarinn og barnastjarnan Jansen Panettiere er látinn, 28 ára að aldri. Hann var bróðir leikkonunnar Hayden Panettiere.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá andlátinu í gær en það var talskona Hayden Panettiere sem staðfesti andlátið í samtali við ABC. Ekki liggur fyrir að hvað dró hann til dauða, en ekki er grunur um að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Jansen Panettiere lagði líkt og systirin leiklistina fyrir sér og fór meðal annars með hlutverk í Nickolodeon-myndinni The Last Days of Summer og í sjónvarpsþáttunum The Walking Dead.

Í frétt ABC kemur fram að hann hafi einnig ljáð persónum í teiknimyndunum Ice: Age The Meltdown og The X’s rödd sína.

Jansen Panettiere fæddist árið 1994 en fyrsta hlutverk hans í sjónvarpi var í Even Steven á Disney-rásinni.

Hayden Panettiere, systir Jansen, sló í gegn í þáttunum vinsælu Heroes sem framleiddir voru á árunum 2006 til 2010.

Systkinin léku saman í kvikmyndinni Tiger Cruise frá árinu 2004 og myndinni Racing Stripes frá árinu 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×