Erlent

Vilja aftur funda með Svíum um NATO-aðild

Atli Ísleifsson skrifar
Mevlüt Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, á blaðamannafundi í Ankara í morgun.
Mevlüt Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, á blaðamannafundi í Ankara í morgun. AP

Tyrknesk stjórnvöld hafa tilkynnt að til standi að halda fleiri fundi með fulltrúum sænskra og finnskra stjórnvalda um NATO-aðild þeirra. Mevlüt Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, greindi frá þessu í morgun.

Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segist fagna fréttunum, en síðustu vikur hafa Tyrkir gefið í skyn að þeir munu einungis staðfesta inngöngu Finna í bandalagið.

Samskipti tyrkneskra og sænskra stjórnvalda hafa verið mjög stirð að undanförnu vegna mótmælafunda í Svíþjóð þar sem mótmælendur hafa kveikt í Kóraninum. Tyrknesk stjórnvöld tilkynntu í síðasta mánuði að hlé hafi verið gert á viðræðum við sænsk stjórnvöld vegna aðgerðaleysis Svía.

Cavusoglu greindi frá ákvörðuninni um fleiri fundi með Finnum og Svíum á fréttamannafundi með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Ankara í morgun. Hann segir þó að Svíar hafi ekki uppfyllt kröfur Tyrkja fyrir því að þeir samþykki aðild þeirra. Blinken sagðist þó vona að Svíar og Finnar gætu gerst aðilar sem allra fyrst.

Finnsk stjórnvöld hafa verið í reglulegum samskiptum við tyrknesk stjórnvöld og hafa bæði forsætisráðherrann Sanna Marin og utanríkistáðherrann Pekka Haavisto sagt að vonir stæðu til að Finnar gætu gengið inn í bandalagið á sama tíma og Svíar. Vonast sænsk og finnsk stjórnvöld til að bæði Svíþjóð og Finnland gætu verið orðnir fullgildir aðilar fyrir leiðtogafundinn í Vilnius í Litháen sem fram fer í júlí næstkomandi.

Finnar og Svíar sóttu um inngöngu í NATO síðasta vor, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×