Erlent

Biden segir lík­lega um að ræða belgi frá einka­aðilum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden hefur sætt gagnrýni fyrir að tjá sig ekki fyrr.
Biden hefur sætt gagnrýni fyrir að tjá sig ekki fyrr. AP/Susan Walsh

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur loksins tjáð sig um óþekktu loftförin sem voru skotin niður í Bandaríkjunum og Kanada á dögunum. Segir hann líklega um að ræða loftför á vegum rannsóknarstofnana eða einkaaðila, sem ekki tengjast njósnaáætlun Kínverja.

Niðurstaðan þykir líkleg til að kynda undir gagnrýni á forsetann um að hafa verið heldur fljótur að taka í gikkinn eftir að loftförin sáust á radar en hann sætti miklum þrýstingi um að sitja ekki aðgerðalaus hjá eftir að hafa leyft njósnabelg frá Kína að fljóta yfir Bandaríkin í nokkurn tíma.

Repúblikanar og Demókratar sameinuðust um það eftir helgi að gagnrýna þögn Biden um aðgerðir flughersins og sögðu hana aðeins til þess að ýta undir samsæriskenningar. Embættismenn sögðu hins vegar óráðlegt fyrir forsetann að tjá sig áður en meira væri vitað um loftförin.

Biden sagði í gær að enn væri ekki vitað um hvað væri að ræða en ekkert benti til þess að loftförin væru þáttur í njósnaáætlun Kína né njósnabúnaður annars ríkis. Það væri mat öryggisstofnana að um væri að ræða belgi frá einkaaðilum, notaða til rannsókna eða í afþreytingarskyni.

Forsetinn ítrekaði einnig að engar skýrar ábendingar væru uppi um að fleiri loftför færu nú yfir Bandaríkin en áður, heldur væru yfirvöld að verða vör við fleiri eftir að ratsjár voru endurstilltar til að nema betur það sem væri í háloftunum.

Biden hefur skipað teymi sem er ætlað að móta stefnu um það hvernig ber að greina á milli saklausra loftfara og mögulegra ógna og hvernig brugðist verður við. Sagðist hann hins vegar ekki munu hika við að grípa til aðgerða ef ábendingar væru uppi um ógn við öryggi bandarísku þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×