Innlent

Ekki orðið vart við ó­þekkt loft­för yfir Ís­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Búið er að endurheimta njósnabelgin og brakið af því sem hann bar en erfiðara hefur verið að hafa uppi á hinum loftförunum, sem féllu í vatn og á ísilögðum svæðum.
Búið er að endurheimta njósnabelgin og brakið af því sem hann bar en erfiðara hefur verið að hafa uppi á hinum loftförunum, sem féllu í vatn og á ísilögðum svæðum. AP/Bandaríski sjóherinn

Ekki hefur orðið vart við óþekkt loftför á borð við þau sem grandað var í Bandaríkjunum á dögunum á loftrýmiseftirlitissvæði Atlantshafsbandalagsins sem Ísland ber ábyrgð á. Kæmu óþekkt loftför inn á svæðið yrðu mögulega sendar herþotur frá Keflavík til móts við þau.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þar sem vísað er til svara utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins.

Eins og kunnugt er skutu Bandaríkjamenn nýlega niður njósnabelg frá Kína auk þriggja óþekktra loftfara sem enn hefur ekki tekist að gera grein fyrir. Unnið er að því að finna og sækja það brak sem kann að hafa fallið til jarðar en loftförin þrjú voru umtalsvert minni en njósnabelgurinn og óvíst hverjar heimturnar verða.

Bandaríkjastjórn segir allt eins víst að um „rusl“ sé að ræða, þar að segja loftför eða belgi sem hafa verið sendir upp í himinhvolfið og ekki skilað sér aftur niður. Þúsundir veður- og rannsóknarbelgja eru sendir á loft í viku hverri í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×