Innlent

„Við þurfum að geta lifað á laununum okkar“

Máni Snær Þorláksson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Rögnvaldur Helgi Helgason segir stéttina frá stuðning frá almenningi.
Rögnvaldur Helgi Helgason segir stéttina frá stuðning frá almenningi. Vísir

Olíubílstjóri hjá Skeljungi segir verkfallið leggjast vel í sig og kollega sína. Stéttin fái stuðning frá almenningi sem klappar þeim á bakið.

Rögnvaldur Helgi Helgason, olíubílstjóri hjá Skeljungi, mætti á baráttufund Eflingar í Norðurljósasal Hörpu í dag. Rögnvaldur er einn þeirra 70 olíubílstjóra sem byrjaði í verkfalli á hádegi í dag. Þá hófst einnig verkfall hjá um 500 starfsmönnum Berjaya og Edition hótelanna.

Í samtali við fréttastofu segir Rögnvaldur að almennt sé ánægja með verkfallið hjá stéttinni. „Ég held að það séu allir bara jákvæðir fyrir þessu verkfalli, mér heyrist það. Það hefur enginn kvartað,“ segir hann.

„Við þurfum að geta lifað á laununum okkar.“

Því hefur verið haldið fram að olíubílstjórar séu hálaunaðir og fái jafnvel tæpa milljón á mánuði í laun. Rögnvaldur segir þó að svo sé ekki.

„Ég held að það sé ekki alveg rétt, við erum allavega ekki með þetta sem ég þekki. En það getur verið að einn og einn sé með þetta ef þeir vinna mikið.“

Fáið þið marga yfirvinnutíma á mánuði?

„Það er voðalega misjafnt, stundum og stundum ekki. Það fer bara eftir því hvernig ástandið er, hversu mikið er að gera.“

Fá klapp á bakið

Aðspurður um það hvernig almenningur hefur brugðist við verkfallinu segir Rögnvaldur að viðbrögðin hafi verið góð. Fólk hafi meira að segja klappað honum á bakið í gær.

„Við fáum stuðning. Ég var að setja á bensínstöð í gær, það kom fólk til mín og bara klappaði á bakið á okkur og þakkaði fyrir. Þau voru bara ánægð með að við færum í verkfall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×