Innlent

Páll Pampichler Páls­son er látinn

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Páll Pampichler Páls­son.
Páll Pampichler Páls­son. Fréttablaðið/Golli

Páll Pampichler Páls­son hljóm­sveitar­stjóri og tón­skáld er látinn. Hann lést í heimaborg sinni í Graz í Austurríki þann 10. febrúar. 

Fréttablaðið greinir frá þessu og vísar til tilkynningar frá fjölskyldu Páls. 

Páll Pampichler fæddist árið 1928 í borginni Graz. Hann var árið 1949 ráðinn sem stjórnandi Lúðra­sveitar Reykja­víkur og 1. trompet­leikari í Út­varps­hljóm­sveitinni. Hann starfaði sem stjórnandi sveitarinnar til ársins 1973 eða samfleytt í 24 ár. 

Páll tók þátt í stofnun og uppbyggingu Sinfóníuhljómsveitar Íslands, var trompetleikari í sveitinni til 1959 en fór þá til framhaldsnáms í Hamborg í Þýskalandi, þar lærði hann m.a. hljómsveitastjórnun eftir að hafa stýrt sveitinni í fyrsta skipti árið 1956. Hann varð fastráðinn stjórnandi hennar í yfir tuttugu ár, um tíma hafði enginn stjórnað sveitinni jafn oft og Páll.

Samhliða stjórnun Lúðrasveitar Reykjavíkur og starfi sínu með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sinnti Páll tónlistarkennslu við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann stjórnaði ennfremur Karlakór Reykjavíkur í ríflega aldarfjórðung.

Páll stýrði einnig og hélt utan um tónlist á sýningum og tónleikum í Þjóðleikhúsinu og Íslensku óperunni, þeirra á meðal mætti nefna La traviata, Galdra-Loft, Kátu ekkjuna og Sígaunabaróninn. Páll var ennfremur einn af stofnendum Kammersveitar Reykjavíkur 1974.

Þá hefur Páll hlotið ýmsar viðurkenninar fyrir störf sín og framlag til íslenskrar tónlistar, hann hlaut t.d. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu en hann hefur einnig þrívegis verið heiðraður í heimalandi sínu Austurríki af stjórnvöldum þar í landi, fyrir kynningu á austurrískri menningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×