Lífið

Burt Bacharach látinn

Máni Snær Þorláksson skrifar

Bandaríski tónlistarmaðurinn og Óskarsverðlaunahafinn Burt Freeman Bacharach er látinn, 94 ára að aldri. 

Bacharach lést í gær á heimili sínu í Los Angeles en fjölmiðlafulltrúi tónlistarmannsins greindi frá andlátinu í dag. 

Það er óhætt að segja að Bacharach sé einn ástsælasti og vinsælasti tónlistarmaður sögunnar. Lög eftir hann rötuðu á topplista áratugum saman, þau fyrstu á sjötta áratug síðustu aldar og þau síðustu á þessari öld. 73 lög eftir hann rötuðu í efstu 40 sætin í Bandaríkjunum og 52 lög fóru á slíkan lista í Bretlandi.

Bacharach skrifaði lög fyrir mikið af þekktasta tónlistarfólki allra tíma. Þar má til að mynda nefna þau Aretha Franklin, Dusty Springfield, Tom Jones og fleiri. Þá gerðu stórstjörnur eins og Bítlarnir, Elvis Presley og Frank Sinatra ábreiður af lögum eftir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×