Erlent

Segir Pútín hafa lofað sér því að láta ekki drepa Selenskí

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bennett ferðaðist til Moskvu í mars í fyrra til að freista þess að miðla málum milli Rússa og Úkraínumanna.
Bennett ferðaðist til Moskvu í mars í fyrra til að freista þess að miðla málum milli Rússa og Úkraínumanna. epa/Sputnik/Yevgeny Biyatov

Naftali Bennett, fyrrverandi forsætisráðherra Ísrael, hefur greint frá því að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hafi heitið honum því skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu að hann myndi ekki láta drepa Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu.

Frá þessu greindi Bennett í viðtali við hlaðvarpsþáttastjórnandann Hanoch Daum sem birt var í gær.

Að sögn Bennett átti umrætt samtal sér stað í mars í fyrra, þegar forsætisráðherrann ferðaðist til Moskvu til að freista þess að miðla málum milli Rússa og Úkraínumanna. 

„Ég spurði: Hefur þú í hyggju að drepa Selenskí? Hann sagði: Ég mun ekki drepa Selenskí. Þá sagði ég: Ég verð að hafa það á hreinu að þú ert að lofa mér því að þú munir ekki drepa Selenskí. Hann sagði: Ég ætla ekki að drepa Selenskí,“ sagði Bennett.

Hann sagðist síðan hafa hringt í Selenskí á leið sinni á flugvöllinn í Moskvu og greint honum frá loforði Pútín. 

Bennett greindi einnig frá því í viðtalinu að miðlunartilraunir hans hefðu borið þann árangur að Selenskí hefði samþykkt að gefa hugmyndir um aðild að Atlantshafsbandalaginu upp á bátinn og Pútín heitið því að gera ekki kröfu um afvopnun Úkraínu sem forsendu fyrir endalokum átaka.

Forsætisráðherrann fyrrverandi sagði umleitanir sínar hafa átt sér stað með samþykki Bandaríkjanna, Þýskalands og Frakklands.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði í samtali við Bild am Sonntag í gær að Pútín hefði ekki haft í hótunum gegn sér né Þýskalandi þrátt fyrir margyfirlýsta afstöðu Þjóðverja gegn stríðsbrölti Rússa. 

Boris Johson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, greindi hins vegar frá því á dögunum að Pútín hefði hótað honum með eldflaugaárás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×