Enski boltinn

Chelsea með mettilboð í argentínska heimsmeistarann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Enzo Fernandez fagnar með heimsmeistarabikarinn í desember.
Enzo Fernandez fagnar með heimsmeistarabikarinn í desember. Getty/ Chris Brunskill

Chelsea er ekki hætt að kaupa leikmenn í þessum félagsskiptaglugga því samkvæmt nýjust fréttum af Brúnni þá hefur enska úrvalsdeildarfélagið boðið 120 milljónir evra í Enzo Fernandez hjá Benfica.

Breska ríkisútvarpið hefur heimildir fyrir því að Chelsea sé tilbúið að slá breska metið til að ná í Fernandez núna í janúarglugganum en hann hefur meðal annars verið orðaður við Liverpool.

120 milljónir evra eru það sama og 105,6 milljón punda eða rúmir 18,4 milljarðar íslenskra króna.

Það mesta sem enskt félag hefur greitt fyrir leikmann eru þær hundrað milljónir punda sem Manchester City borgaði Aston Villa fyrir Jack Grealish árið 2021.

Argentínumaðurinn ungi átti frábært heimsmeistaramót í lok síðasta árs þar sem hann var meðal annars kosinn besti ungi leikmaður keppninnar.

Enzo Fernandez er enn bara 22 ára gamall en kom til Benfica frá River Plate í júní á síðasta ári. Fernandez skoraði glæsilegt mark fyrir argentínska landsliðið á HM í sigri á Mexíkó.

Fernandez er með eitt mark og fimm stoðsendingar í sautján leikjum með Benfica í portúgölsku deildinni á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×