Erlent

Tíu börn drukknuðu í skóla­ferða­lagi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Að minnsta kosti fjörutíu og einn lést í rútuslysinu.
Að minnsta kosti fjörutíu og einn lést í rútuslysinu. EFE/EDHI

Tvö hræðileg slys urðu í Pakistan í dag. Annars vegar mannskætt bílslys og hins vegar þegar bátur sökk. Að minnsta kosti fimmtíu hafa látið lífið í slysunum tveim.

Tíu börn á milli sjö og fjórtán ára drukknuðu þegar bát hvolfdi á vatninu Tanda Dam. Ellefu börnum til viðbótar var bjargað en sex liggja þungt haldin á sjúkrahúsi. Níu barna er enn saknað. Þau voru í skólaferðalagi þegar slysið varð.

Þá lést minnst fjörutíu og einn þegar rúta keyrði fram af klöpp og ofan í gljúfur þar sem kviknaði í henni. Aðeins tveir komust lífs af úr rútunni en eru þungt haldnir. Yfirmaður aðgerðarstjórnar á svæðinu óttast að rútubílstjórinn hafi sofnað undir stýri.

Að sögn yfirvalda er ekki hægt að bera kennsl á lík rútufarþeganna með hefðbundnum aðferðum svo grípa verður til erfðatækni til að fá úr um það skorið hverjir hinir látnu voru. Björgunaraðgerðir hafa staðið yfir í dag. Guardian greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×